Erlent

Tugir látnir eftir sprengingu í sviss­neskum skíða­bæ

Atli Ísleifsson skrifar
Viðbúnaðurinn hefur verið mikill í Crans-Montana í nótt og í morgun.
Viðbúnaðurinn hefur verið mikill í Crans-Montana í nótt og í morgun. AP

Tugir manna eru taldir af og rúmlega hundrað til viðbótar eru slasaðir eftir að sprenging varð í nýársfögnuði á bar í svissneska skíðabænum Crans-Montana í nótt.

Þetta kom fram á blaðamannafundi svissnesku lögreglunnar í morgun sem boðað var til eftir að mikill eldur blossaði upp í kjölfar sprengingar um klukkan 1:30 að staðartíma á barnum Le Constellation Bar and Lounge. 

Crans-Montana er að finna í kantónunni Valais í suðvesturhluta landsins og er vinsæll áfangastaður skíðafólks í Ölpunum.

Erlendir fjölmiðlar greindu frá því í morgun að tíu hið minnsta væru látnir og tíu til viðbótar hafi slasast á staðnum, en á blaðamannafundi lögreglunnar í morgun kom fram að manntjónið væri mun meira. 

Grunur er um að sprengingin hafi orsakast af flugeldum sem hafi verið notaðir á tónleikum inni á staðnum. Lögregla hefur hafið rannsókn á málinu, en á blaðamannafundinum kom fram að það sé ekki rannsakað sem hryðjuverk.

Frá vettvangi. EPA

Fréttin hefur verið uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×