Enski boltinn

Alls ekki síðasti leikur Semenyo

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Andoni Iraola segir Antoine Semenyo ekki hafa sungið sitt síðasta fyrir Kirsuberin.
Andoni Iraola segir Antoine Semenyo ekki hafa sungið sitt síðasta fyrir Kirsuberin. AFC Bournemouth/AFC Bournemouth via Getty Images

Manchester City virðist vera að ganga frá kaupsamkomulagi við Antoine Semenyo, leikmann Bournemouth, en þjálfarinn Andoni Iraola segir hann ekki hafa spilað sinn síðasta leik fyrir félagið.

Áður hefur verið greint frá því að Bournemouth hafi samþykkt 65 milljóna punda tilboð frá City og félagaskiptaglugginn opnar á morgun, nýársdag.

Semenyo er sjálfur sagður vilja ganga frá sínum málum sem fyrst en hann spilaði allar níutíu mínúturnar og átti þátt í þremur mörkum í 2-2 jafntefli gegn Chelsea í gærkvöldi.

Vangaveltur voru, og eru enn, um hvort þetta hafi verið síðasti leikur Semenyo fyrir Bournemouth en liðið á næst leiki gegn Arsenal þann 3. janúar og Tottenham þann 7. janúar.

Svo heimsækir liðið Newcastle í FA bikarnum þann 10. janúar, sama dag og sagt er að 65 milljóna klásúlan í samningi Semenyo renni út.

„Hann er virkilega mikilvægur leikmaður og verður enn þá með okkur“ sagði Iraola, spurður út í næsta leik gegn Arsenal.

„Þetta var ekki síðasti leikurinn sem hann spilar fyrir okkur, alls ekki.“

BBC segir Bournemouth vilja halda Semenyo í deildarleikjunum gegn Lundúnaliðunum en muni sleppa honum fyrir bikarleikinn.

Heimildir þeirra herma einnig að Liverpool hafi enn áhuga, auk annarra stórliða, en City sé eina liðið sem hafi formlega haft samband við Bournemouth og því fari Semenyo þangað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×