Enski boltinn

Segir dómarana bara hafa verið að giska

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Hurzeler segir ómögulegt að sjá hvort þetta hafi verið hendi.
Hurzeler segir ómögulegt að sjá hvort þetta hafi verið hendi. Jordan Pettitt/PA Images via Getty Images

Fabian Hurzeler, þjálfari Brighton í ensku úrvalsdeildinni, er allt annað en ánægður með ákvarðanatöku dómaranna í 2-2 jafntefli liðsins gegn West Ham í gærkvöldi.

Leikurinn var mikill vítaleikur en alls þrjár vítaspyrnur voru dæmdar og skorað úr tveimur þeirra.

Fyrirliði Brighton, miðvörðurinn Lewis Dunk, var ásakaður um að hafa handleikið boltann rétt fyrir hálfleik og vítaspyrna var dæmd, eftir að dómaranum Stuart Attwell var sagt að skoða atvikið aftur í VAR skjánum.

Lucas Paqueta skoraði svo úr spyrnunni og kom West Ham 2-1 yfir en Brighton tókst að jafna í seinni hálfleik. Atvikið má sjá eftir um eina og hálfa mínútu í spilaranum hér fyrir neðan.

„Það getur enginn sagt að þetta hafi verið augljós hendi og VAR myndbandið er ekki nógu skýrt, þannig að þetta er bara ágiskun og við eigum að vera besta deild í heimi. Að taka svona ákvörðun út frá ágiskun, þetta á ekki að gerast“ sagði Fabian Hurzeler, þjálfari Brighton, eftir leik.

Fabian Hurzeler var ósáttur við dómarana og vítadóminn. Robin Jones - AFC Bournemouth/AFC Bournemouth via Getty Images

Hann hafði þó ekki mikið að segja um vítaspyrnuna sem Danny Welbeck vippaði í slánna í fyrri hálfleik, nokkrum mínútum eftir að hafa skorað örugglega úr fyrri vítaspyrnu Brighton.

„Danny tók sína ákvörðun, ef hann hefði gert þetta vel hefðu allir sagt: Vá, þvílíkt víti. Hann nýtur okkar stuðnings og hefur hjálpað okkur heilmikið á tímabilinu“ sagði Hurzeler.

Þetta var í annað sinn í desember sem Brighton gerir jafntefli við West Ham og Mávarnir hafa nú farið sex leiki í röð án sigurs en þeir sitja í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×