Viðskipti innlent

Sigla til loðnuleitar í fyrstu viku janúar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Guðmundur J. Óskarsson fiskifræðingur er sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar.
Guðmundur J. Óskarsson fiskifræðingur er sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar. Einar Árnason

Áformað er hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson haldi til loðnuleitar í byrjun nýs árs. Gert er ráð fyrir að lagt verði úr höfn á tímabilinu 4. til 6. janúar. Stærri loðnuleit með þátttöku fimm skipa er svo ráðgerð upp úr miðjum janúarmánuði.

„Árni verður einn í fyrstu leitinni í byrjun janúar þar sem við miðum einkum við að fá upplýsingar um útbreiðsluna á henni og hversu austarlega hún er komin,“ segir Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknarstofnunar.

„Við gerum svo ráð fyrir að heildarmæling muni byrja á bilinu 15. til 20. janúar. Í henni munu taka þátt rannnsóknaskipin Árni Friðriksson og Þórunn Þórðardóttir og veiðiskipin Polar Ammassak, Barði og Heimaey.“

Árni Friðriksson bakkar frá bryggju í Hafnarfirði. Höfuðstöðvar Hafrannsóknastofnunar eru í litskrúðuga húsinu vinstra megin.Egill Aðalsteinsson

Fyrirkomulagið er svipað því sem verið hefur undanfarin ár nema hvað loðnumælingin hefst núna í byrjun janúar í staðinn fyrir miðjan desember, að sögn Guðmundar. Búið er að kvarða bergmálsmæla í Polar Ammassak og Barða og stefnt á að kvarða mæla Heimaeyjar strax eftir áramót.

„Við gerum svo ráð fyrir að þörf verði á frekari leit og mælingum í byrjun febrúar líkt og undanfarin ár. Árni Friðriksson og veiðskip munu sinna þeim eftir þörfum,“ segir Guðmundur.

Frá loðnuveiðum á Faxaflóa árið 2021. Myndin er tekin um borð í Beiti NK, skipi Síldarvinnslunnar. Snæfellsjökull í baksýn.KMU

Hafrannsóknastofnun lagði í haust til að loðnukvóti verði að hámarki tæp 44 þúsund tonn á fiskveiðiárinu 2025 til 2026. Ráðgjöfin byggir á mælingum á loðnustofninum sem voru gerðar í september. Endurmeta á ráðgjöfina eftir áramót.

Vertíðin í fyrra reyndist einhver sú minnsta í sögu loðnuveiða. Þá var einungist leyft að veiða um 8.600 tonn. 


Tengdar fréttir

Leggja til tæp­lega 44 þúsund tonna loðnu­kvóta

Hafrannsóknastofnun leggur til að loðnukvóti verði að hámarki tæp 44 þúsund tonn á fiskveiðiárinu 2025 til 2026. Ráðgjöfin byggir á mælingum á loðnustofninum sem voru gerðar í síðasta mánuði. Endurmeta á ráðgjöfina eftir áramót.

„Minnstu loðnuvertíð sögunnar að ljúka“

„Að öllu óbreyttu, þ.e.a.s. ef ekki verður gefinn út viðbótarkvóti er minnstu loðnuvertíð sögunnar að ljúka,“ segir í tilkynningu Vinnslustöðvarinnar um loðnuveiðar sem hafa farið fram síðan atvinnuvegaráðherra gaf út kvóta síðastliðinn fimmtudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×