Lífið

Krydd­síld fagnar af­mæli og öllum er boðið

Boði Logason skrifar
Það var mikil stemning í Kryddsíldinni í fyrra.
Það var mikil stemning í Kryddsíldinni í fyrra. Vísir/Hulda Margrét

Það styttist óðum í hina árlegu Kryddsíld á gamlársdag þangað sem formenn flokkanna á Alþingi mæta til að gera upp árið. Þátturinn er í beinni útsendingu á Sýn klukkan 14 og aðgengilegur öllum landsmönnum. Um er að ræða 35 ára afmæli þáttarins í sjónvarpi. Stiklan fyrir þáttinn í ár er komin í birtingu og má sjá neðst í fréttinni.

Í síðustu Kryddsíld var nýbúið að mynda ríkisstjórn og mikil hveitibrauðsstemning yfir Valkyrjunum svonefndu. Ári síðar er tímabært að taka stöðuna, hvað gekk vel, hvað gekk illa og hvað ber nýtt ár í skauti sér á sviði stjórnmálanna? Gera má ráð fyrir að fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafi ýmislegt um það allt saman að segja.

Kryddsíldina frá í fyrra má sjá í heild sinni að neðan.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, þreytir frumraun sína í Kryddsíld en óhætt er að segja að Bjarni Benediktsson, forveri hennar, hafi farið mikinn í Kryddsíldinni í fyrra. Nokkrum dögum síðar tilkynnti hann um brotthvarf sitt af Alþingi.

Bjarni Ben fagnaði innilega niðurstöðu könnunar sem sagt var frá í fyrra.

Brakandi fersk skoðanakönnun frá Maskínu verður kunngjörð, hulunni verður svipt af vali fréttastofunnar á manni ársins og vandræðagangur ársins verður gerður upp með skemmtilegum hætti og lifandi flutningi.

Að neðan má kíkja á bak við tjöldin í Kryddsíldinni í fyrra.

Erla Björg Gunnarsdóttir ritstjóri og Kolbeinn Tumi Daðason fréttastjóri stýra umræðum en gestgjafi hans er sem fyrr Telma Tómasson. Almenningur getur tekið þátt í umræðunni með færslum á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #kryddsíld.

Inga Sæland og Sigmundur Davíð voru í banastuði í fyrra og Inga hnyklaði vöðvana.

Í brakandi ferskri stiklu fyrir þáttinn má sjá þau Jóa og Kiddý, bryta þáttarins, undirbúa veisluna og vinna í boðskortum til formannanna. En engar áhyggjur, þér er líka boðið!

Stikluna má sjá hér að neðan.

Í Íslandi í dag í kvöld verður rætt við nokkra fastagesti í gegnum tíðina og þau velja sínar uppáhaldsminningar úr þættinum sem skipar fastan sess á mörgum heimilum landsins á gamlársdag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.