Körfubolti

Leonard aldrei skorað meira en í nótt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kawhi Leonard og félagar hans í Los Angeles Clippers virðast vera komnir á beinu brautina eftir erfitt gengi framan af tímabili.
Kawhi Leonard og félagar hans í Los Angeles Clippers virðast vera komnir á beinu brautina eftir erfitt gengi framan af tímabili. getty/Katelyn Mulcahy

Kawhi Leonard setti persónulegt stigamet í 112-99 sigri Los Angeles Clippers á Detroit Pistons í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Leonard skoraði 55 stig í leiknum og jafnaði stigametið hjá Clippers. Hann deilir því nú með samherja sínum, James Harden.

Leonard hefði þó hæglega getað slegið metið en hann spilaði bara sex mínútur í 4. leikhluta þar sem staða Clippers var góð.

Alls spilaði Leonard í 39 mínútur í leiknum í nótt. Hann hitti úr sautján af 26 skotum sínum, þar af fimm af tíu fyrir utan þriggja stiga línuna. Þá nýtti hann sextán af sautján vítaskotum sínum í leiknum. Leonard tók einnig ellefu fráköst, stal boltanum fimm sinnum og varði þrjú skot.

„Hann er loksins að verða heill heilsu og getur loksins spilað nógu margar mínútur til að vera skilvirkur,“ sagði Tyronn Lue, þjálfari Clippers, eftir leikinn.

„Þegar hann er heill er hann einn af bestu leikmönnum deildarinnar. Við höfum séð það að undanförnu,“ bætti Lue við en Leonard hefur skorað 39,0 stig að meðaltali í síðustu fjórum leikjum Clippers.

Harden skoraði 28 stig og gaf sjö stoðsendingar fyrir Clippers sem hefur unnið fjóra leiki í röð. Liðið er samt sem áður í 13. sæti Vesturdeildarinnar en aðeins Sacramento Kings og New Orleans Pelicans hafa unnið færri leiki vestanmegin í vetur en Clippers.

Í þeim tuttugu leikjum sem Leonard hefur spilað á þessu tímabili er hann með 26,2 stig, 6,3 fráköst, 3,5 stoðsendingar og 2,0 stolna bolta að meðaltali. Leonard er á sínu sjötta tímabili með Clippers en hann kom til liðsins eftir að hafa orðið meistari með Toronto Raptors 2019.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×