Veður

Lík­legt að hitamet verði slegið um jólin

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. vísir

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur telur líklegt að hitamet verði slegið á aðfangadag og jóladag. Það sé klárt að það verði rauð jól. Í stað þess að ökumenn þurfi að hafa varann á vegna snjókomu og hálku þurfa þeir frekar að huga að vindhviðum og rigningu.

„Aðalmálið í þessu er að það verða mjög mikil vetrarhlýindi. Þau byrja í raun og veru annað kvöld,“ segir Einar í Reykjavík síðdegis í dag.

Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugular og gular viðvaranir á aðfangadag fyrir stærstan hluta landsins. Viðvaranirnar eru að mestu vegna hvassviðris og rigningar.

„Þetta er ekkert óþekkt veður, við höfum ekki séð þetta um jólin áður.“

Einar spáir um átta til níu stiga hita á aðfangadag á sunnanverðu landinu og yfir tíu gráðum fyrir norðan. Fari hitinn yfir tíu stig í Reykjavík og yfir þrettán stig á Akureyri, sem Einar telur líklegt, verði hitamet slegið.

„Þetta er dálítið einkennilegt vegna þess að það hlánar upp úr öllu. Sá litli snjór sem er fyrir á landinu, hann bráðnar, kannski ekki í hæstu fjöllum, en allavega á fjallvegum. Það jákvæða og góða við þetta er, af því maður hefur oft verið að stússast í því mörg undanfarin jól að hafa áhyggjur af ferðinni um jólin, hafa áhyggjur af hálu og ísingu, ófærð og einhverju slíku. Nú eru allir vegir auðir,“ segir Einar.

Hins vegar þurfi ökumenn að vara sig á vindhviðum, til að mynda verði býsna hvasst í suðvestanátt í kringum Akureyri.

„Þetta er auðvitað óvenjulegt jólaveður í alla staði og þetta stendur fram á jóladag.“

Íslendingar geti búist við eins konar sýnishorni af jólasnjó á annan í jólum en svo taki strax aftur að hlýna.

„Samkvæmt spánni er gert ráð fyrir því að skilin fari vestur yfir Ísland seint á jóladag og við fáum hérna einn dag með köldu veðri. Þegar ég tala um kalt veður, þá undir frostmarki og það geti snjóað hér víða um vestanvert landið á annan í jólum. Við fáum svona sýnishorn af jólasnjó.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×