Fótbolti

Frelsaði fjárfestirinn Dani Alves gefur sjálfum sér samning

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dani Alves á HM 2022. Skömmu áður en hann hætti að spila í kjölfar kynferðisbrots. 
Dani Alves á HM 2022. Skömmu áður en hann hætti að spila í kjölfar kynferðisbrots.  Richard Sellers/Getty Images

Dani Alves, einn sigursælasti knattspyrnumaður sögunnar, er að festa kaup á liði í þriðju efstu deild Portúgals þar sem hann mun einnig skrifa undir sem leikmaður og snúa aftur á völlinn eftir nokkurra ára fjarveru.

Marca greinir frá því að Brasilíumaðurinn og fyrrum leikmaður Barcelona, Juventus, PSG og fleiri liða sé, ásamt öðrum fjárfestum, að kaupa Sao Joao da Ver, lið sem situr í 10. sæti þriðju deildarinnar í Portúgal.

Alves hætti að spila fótbolta í ársbyrjun 2023, eftir að hafa verið handtekinn fyrir að hafa beitt konu kynferðislegu ofbeldi á gamlárskvöld.

Hann sat inni í rúmt ár og var að lokum dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi, en í febrúar á þessu ári var hann látinn laus gegn tryggingu og dómnum var síðan snúið við.

Nýlega hefur Alves vakið athygli fyrir störf sín sem prédikari en myndband af guðsþjónustu hans fór víða á samfélagsmiðlum í haust.

Samkvæmt umfjöllun Marca og ESPN Brazil er Alves staðráðinn í að enda leikmannaferilinn á eigin forsendum og spenntur fyrir því að spila fótbolta á ný. Hann er orðinn 42 ára gamall og myndi aðeins gera stuttan sex mánaða samning áður en skórnir fara aftur upp á hillu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×