Sport

Bunting dró orð sín til baka með tárin í augunum: „Ég er ekki meistari fólksins“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Bunting var mikið niðri fyrir á blaðamannafundinum og tárin runnu.
Stephen Bunting var mikið niðri fyrir á blaðamannafundinum og tárin runnu. @livedarts

Pílukastarinn Stephen Bunting varð fyrir barðinu á illvígum netverjum eftir yfirlýsingu sína á dögunum. Hann tók allt til baka á blaðamannafundi og þar sáust miklar tilfinningar hjá þessum vinsæla fertuga Breta.

„Ég hef fengið töluvert skítkast á samfélagsmiðlum,“ segir Bunting sem vanalega er í miklu uppáhaldi hjá áhorfendum á leikjum sínum.

Englendingurinn er í fjórða sæti heimslistans og er kominn áfram í þriðju umferð á heimsmeistaramótinu í pílukasti. Eftir sigurinn á Nitin Kumar var ekki mikið um fagnaðarlæti hjá þeim enska.

Þess í stað hóf hann blaðamannafund á því að verja ummæli sem hann lét falla eftir leikinn sinn í fyrstu umferðinni.

„Ég sagði að ég væri meistari fólksins. En það var bókstaflega bara tilvitnun í það sem Sky Sports og PDC (Professional Darts Corporation) hafa sagt. Það er ekkert sem ég fann upp á,“ segir Stephen Bunting.

Ummælin mættu talsverðri gagnrýni á samfélagsmiðlum frá öðrum stuðningsmönnum.

„En heyrið þið, ég er ekki meistari fólksins. Ég mæti á svæðið, ég reyni að gera mitt besta til að vinna hvern einasta leik. Ég gef 110 prósent hverju sinni,“ sagði Bunting.

Bunting hrósar þeim sem styðja hann, nefnir að YouTube-rásin hans hafi náð hundrað þúsund áskrifendum og segist finna fyrir stuðningnum á netinu.

Þegar hann talar um áhorfendurna og andrúmsloftið í Alexandra Palace varð hann tilfinningasamur og þurfti að berjast við tárin. Hann sagist vera að verða viðkvæmur og baðst afsökunar á því að þurfa að ná áttum.

Uppáhald áhorfenda nefndi einnig að hann hafi fengið yfir sig mikið skítkast á miðlunum sínum.

„Ég hef líka fengið heilmikið af tölvupóstum. En ég verð að láta það yfir mig ganga. Fólk á netinu er duttlungafullt. Heyrið þið, þið sjáið áhorfendurna hérna inni í kvöld. Þetta eru alvöru pílukastaðdáendur. Þeir vita fyrir hvað ég stend,“ sagði Bunting.

Í fjórðu umferð mætir Stephen Bunting landa sínum James Hurrell.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×