Sport

Ó­trú­leg tíðindi á HM í pílukasti: „Mikið sjokk“

Aron Guðmundsson skrifar
Fyrrverandi heimsmeistarinn í Pílukasti, Gerwyn Price er úr leik á yfirstandandi heimsmeistaramóti. Hún var sópað út út mótinu af Hollendingnum Wesley Plaisier
Fyrrverandi heimsmeistarinn í Pílukasti, Gerwyn Price er úr leik á yfirstandandi heimsmeistaramóti. Hún var sópað út út mótinu af Hollendingnum Wesley Plaisier Vísir/Getty

Gerwyn Price, einn besti pílukastari heims undanfarin ár, er úr leik á HM í pílukasti eftir að hafa verið sópað út af Hollendingnum Wesley Plaisier í Alexandra Palace í kvöld.

Tíðindi sem fæstir bjuggust við fyrir viðureign kappanna í kvöld. Jú Plaisier er afar sterkur pílukastari og var búist við því að hann myndi veita Price einhverja samkeppni, en það að sópa þessum fyrrverandi út úr mótinu 3-0 er hreint út sagt ótrúlegt.

Price hafði verið kokhraustur eftir sigur sinn í fyrstu umferð mótsins og gaf það þá út að annað hvort hann eða Luke Littler, ríkjandi heimsmeistari, myndi standa uppi sem sigurvegari. Nú er ljóst að Price mun ekki geta hampað heimsmeistaratitlinum. 

Sá velski lenti í vandræðum allt frá upphafi viðureignarinnar við Plaisier í kvöld. Price tapaði fyrsta settinu 3-1, öðru einnig 3-1 og svo tók sá hollenski þriðja settið 3-2. 

„Þetta eru ótrúleg úrslit,“ sagði Mark Webster, sérfræðingur Sky Sports á heimsmeistaramótinu. „Þetta er mikið sjokk fyrir Price,“ bætti hann við og sagði að framundan yrðu erfið jól fyrir Price sem hafði talað digurbarkalega í aðdraganda viðureignar kvöldsins.

Plaisier mætir hinum pólska Krzysztof Ratajski í þriðju umferð mótsins og nýtti tækifærið, eftir viðureign sína við Price í kvöld, til þess að óska öllum gleðilegra jóla. 

Sex viðureignum er lokið á HM í pílukasti í dag. En von bráðar mun heimsmeistarinn sjálfur, Luke Littler, mæta hinum velska David Davies. Hægt er að horfa á beina útsendingu á mótinu á Sýn Sport Viaplay rásinni.

Úrslitin á HM í pílukasti í dag:

Ryan Joyce 1 - 3 Krzysztof Ratajski

Joe Cullen 1 - 3 Mensur Suljovic

Luke Woodhouse 3 - 0 Max Hopp

Rob Cross 3 - 1 Ian White

Martin Schindler 3 - 0 Keane Barry







Fleiri fréttir

Sjá meira


×