Handbolti

Rúnar sótti sinn fyrsta sigur sem þjálfari Wetzlar

Aron Guðmundsson skrifar
Rúnar er mættur aftur í þýsku úrvalsdeildina og var ekki lengi að sækja fyrsta sigurinn sem þjálfari Wetzlar
Rúnar er mættur aftur í þýsku úrvalsdeildina og var ekki lengi að sækja fyrsta sigurinn sem þjálfari Wetzlar Mynd: Wetzlar

Rúnar Sigtryggsson stýrði Wetzlar til sigurs gegn Eisenach í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. Fyrir leik dagsins hafði Wetzlar tapað ellefu leikjum í röð en þetta var annar leikur liðsins undir stjórn Rúnars. Loktatölur sex marka sigur Wetzlar, 33-27.

Íslendingurinn knái, sem tók við stjórn Wetzlar fyrir ekki svo löngu síðan, búinn að setja sitt handbragð á liðið sem þurfti svo sárlega á sigri að halda í kvöld í baráttu sinni um að halda sæti sínu í þýsku úrvalsdeildinni.

Wetzlar hafði tapað sínum fyrsta leik undir stjórn Rúnars gegn ríkjandi Þýskalandsmeisturum Fusche Berlin í síðustu umferð en í kvöld tókst liðinu að ná í afar kærkominn sigur, þann fyrsta undir stjórn Rúnars. 

Jafnræði var með liðunum í leik dagsins framan af en þegar líða tók á fyrri hálfleikinn tókst Eisenach að byggja upp smá bil sem stóð í þremur mörkum, 12-15, þegar fyrri hálfleikur rann sitt skeið. 

Lærisveinar Rúnars mættu hins vegar tilbúnir í alvöru átök í seinni hálfleik og tókst að brúa bilið og svo komast yfir þegar rétt rúmar átján mínútur eftir lifðu leiks. 

Forystuna í leiknum létu þeir ekki af hendu, heldur byggðu bara við forystu sína og fór svo að Wetzlar fór með sex marka sigur af hólmi, 33-27. 

Þetta var aðeins þriðji sigur liðsins á tímabilinu en hann sér til þess að Wetzlar er nú með sjö stig í næstneðsta sæti deildarinnar en aðeins tveimur stigum frá öruggu sæti þegar enn er nóg eftir af deildinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×