Innlent

Grunuð um að koma til landsins til að brjóta á öldruðum

Agnar Már Másson skrifar
Þetta kemur fram í tilkynningu. Mynd úr safni. 
Þetta kemur fram í tilkynningu. Mynd úr safni.  Vísir/Vilhelm

Þrír erlendir ríkisborgarar munu þurfa að dúsa í gæsluvarðhaldi fram yfir áramót þar sem lögregla grunar þá um hafa komið hingað til lands til að fremja auðgunarbrot og hafa háar fjárhæðir af öldruðu fólki.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi út tilkynningu í kvöld þess efnis að tveir karlar og ein kona hefðu verið úrskurðuð í gæsluvarðhald af Héraðsdómi Reykjavíkur til 2. janúar í þágu rannsóknar lögreglu á meintum auðgunarbrotum.

Tekið er fram í tilkynningunni að þremenningarnir, sem allir eru erlendir ríkisborgarar á þrítugs- og fertugsaldri, hafi verið handteknir á fimmtudag vegna ætlaðra brota í Reykjavík sem beindust gegn öldruðu fólki og varða háar fjárhæðir.

„Þessir erlendu ríkisborgarar komu til Íslands í byrjun vikunnar en talið er að tilgangur ferðarinnar hafi verið að stunda brotastarfsemi hérlendis,“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar en fleira kemur ekki fram um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×