Viðskipti innlent

Ljúka kaupum á Hreinsitækni og HRT þjónustu

Atli Ísleifsson skrifar
Ásmundur Tryggvason er forstjóri Styrkás.
Ásmundur Tryggvason er forstjóri Styrkás. Styrkás

Styrkás hf. hefur lokið kaupum á öllu hlutafé í Hreinsitækni ehf., HRT þjónustu ehf. og tengdum félögum („Hreinsitækni“). Með kaupunum verður Hreinsitækni hluti af samstæðu Styrkás.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Styrkás. Hreinsitækni sé leiðandi í umhverfis- og innviðaþjónustu fyrir sveitarfélög og fyrirtæki. 

„Félagið hefur aðstöðu og tækjaflota í fjórum landshlutum og hjá því starfa um 150 manns. Með kaupunum verður til fjórða tekjusvið Styrkás, á sviði umhverfis- og iðnaðarþjónustu.

Hreinsitækni verður áfram rekið sem sjálfstætt félag innan samstæðu Styrkás undir óbreyttri forystu Björgvins Jóns Bjarnasonar forstjóra,“ segir í tilkynningunni. 

Haft er eftir Ásmundi Tryggvasyni, forstjóra Styrkás, að með því að ljúka kaupum á Hreinsitækni sé félagið að stíga mikilvægt skref í uppbyggingu Styrkás og mótun fjórða kjarnasviðs samstæðunnar. „Hreinsitækni fellur vel að starfsemi Styrkás og styrkir þjónustuframboð okkar til fyrirtækja og sveitarfélaga um allt land.“

Þá segir Björgvin Jón Bjarnason, forstjóri Hreinsitækni og HRT þjónustu, að það að verða hluti af samstæðu Styrkás marki mikilvægan áfanga í sögu félagsins. „Við hlökkum til að efla starfsemina enn frekar og nýta þau tækifæri sem felast í auknum slagkrafti og samlegð innan samstæðu.“

Ennfremur segir í tilkynningunni að kaupin séu í samræmi við stefnu Styrkás um að byggja upp sterkt þjónustufélag við uppbyggingu atvinnuvega- og innviða með sterkar stoðir á fjórum kjarnasviðum, í orku og efnavörum, tækjum og búnaði, eignaumsýslu og leigustarfsemi, auk umhverfis- og iðnaðarþjónustu. Styrkás stefnir jafnframt að því að skrá félagið í kauphöll Íslands fyrir árslok 2027.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×