Sport

„Eitt ó­trú­legasta augna­blik sem þú sérð í hvaða í­þrótt sem er“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kenýumaðurinn David Munuya skrifaði söguna síðdegis.
Kenýumaðurinn David Munuya skrifaði söguna síðdegis. Andrew Redington/Getty Images

Kenýumaðurinn David Munuya kom sá og sigraði á HM í pílukasti síðdegis. Hann var fyrsti Kenýumaðurinn í sögunni til að stíga á stokk í Alexandra Palace en var ekki mættur til þess eins að taka þátt.

Munuya var bersýnilega stressaður þegar hann mætti Belganum Mike De Decker, sem er sextándi á heimslista. Munuya fékk sína sénsa en stressaðist upp þegar útkastið bauðst og lenti 2-0 undir í settum og virtist ljóst að honum yrði sópað úr leik.

Þá mistaldi hann oftar en einu sinni eftir því sem pressan jókst, auk þess að verða fyrir árás geitungsins fræga í höllinni.

Það er hins vegar mikið í Kenýumanninn spunnið. Hann hélt sínu striki og fékk stúkuna með sér á sitt band. De Decker missti hausinn eftir að óþekkti mótherjinn komst á flug og Munuya vann leikinn 3-2 eftir hreint ótrúlega skemmtun á Sýn Sport Viaplay í síðdegið.

„Þetta er ein stærsta sagan á HM í pílukasti. Þetta er eitt stærsta sjokkið í sögu mótsins. Þetta er eitt ótrúlegasta augnablik sem þú sérð í hvaða íþrótt sem er. David Munyua – hneigðu þig!“ sagði enski lýsandinn þegar sigur Munuya var vís.

Kenýumaðurinn var ekki sá eini sem kom á óvart í dag en lítt þekktur Japani að nafni Motomu Sakai sópaði Frakkanum Thibault Tricole, sem hlaut silfur á HM 2022, úr keppni með 3-0 sigri í settum.

HM í pílukasti er hvergi nærri lokið í dag. Þrefaldi heimsmeistarinn Michael van Gerwen mætir til leiks í kvöld líkt og Englendingurinn Dave Chisnall, ásamt fleirum.

Viðureignir kvöldsins eru:

  • Jermaine Wattimena (Holland) - Dominik Grullich (Þýskaland)
  • Dave Chisnall (England) - Fallon Sherrock (England)
  • Michael van Gerwen (Holland) - Mitsuhiko Tatsunami (Japan)
  • Krzysztof Ratajaski (Pólland) - Alexis Toylo (Filippseyjar)

Bein útsending frá HM í pílukasti hefst klukkan 18:55 í kvöld á Sýn Sport Viaplay.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×