Fótbolti

Vålerenga úr leik eftir tap fyrir stöllum Glódísar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sædís var ásamt Örnu Eiríksdóttur í tapliði Valerenga í Bæjaralandi í dag. Þar var enga Glódísi Perlu að sjá.
Sædís var ásamt Örnu Eiríksdóttur í tapliði Valerenga í Bæjaralandi í dag. Þar var enga Glódísi Perlu að sjá. Marius Simensen/Getty Images

Úrslitin voru nokkuð eftir bókinni í Meistaradeild kvenna í fótbolta í kvöld. Deildarhlutakeppninnar lauk þar sem tvö Íslendingalið féllu úr keppni.

Tólf efstu liðin fara áfram og var mjótt á munum í töflunni fyrir lokaumferðina í dag. Fjögur efstu liðin fara beint í átta liða úrslit á meðan þau næstu átta fyrir neðan fara í umspil.

Barcelona vinnur deildina þökk sé 2-0 útisigri á Paris FC, sem fer þó áfram, annað en lið Paris Saint-Germain sem hefur ekki gengið vel í keppninni.

Margfaldir meistarar Lyon fylgja Barcelona áfram í öðru sæti, vegna slakari markatölu. Lyon vann Atlético Madrid 4-0 í Frakklandi.

Chelsea vann Wolfsburg 2-1 og er í þriðja sæti en Bayern Munchen í því fjórða. Bayern vann Vålerenga frá Noregi 3-0.

Barcelona, Lyon, Chelsea og Bayern fara því í átta liða úrslit keppninnar á meðan næstu átta fyrir neðan fara í umspil.

Glódís Perla Viggósdóttir var ekki í leikmannahópi Bayern en þær Sædís Rún Heiðarsdóttir og Arna Eiríksdóttir spiluðu allan leikinn fyrir þær norsku sem hefðu þurft sigur til að komast áfram, og eru því úr leik.

Amanda Andradóttir kom ekki við sögu hjá Twente sem gerði svekkjandi 1-1 jafntefli við Real Madrid. Madrídingar jöfnuðu leikinn á sjöttu mínútu uppbótartíma og fara áfram, en ljóst var fyrir leikinn að Twente ætti ekki möguleika á því og er því úr leik.

Manchester United vann 1-0 sigur á Juventus og bæði lið fara áfram þar, í 6. og 7. sæti, rétt fyrir neðan Arsenal sem vann 3-0 sigur á Oud-Heverlee Leuven - sem kemst þó einnig áfram í tólfta sætinu.

Wolfsburg og Atlético Madrid fara þá einnig áfram í næstu umferð keppninnar þrátt fyrir töp í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×