Innlent

Grunaður um mann­dráp á Kársnesi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá Skjólbraut á Kársnesi í Kópavogi.
Frá Skjólbraut á Kársnesi í Kópavogi. Vísir/Vilhelm

Karlmaður sem er í haldi lögreglu vegna mannsláts á Kársnesi í Kópavogi er grunaður um að hafa drepið mann sem fannst látinn á heimili sínu í bænum þann 30. nóvember. Lögregla óskaði fyrr í dag eftir myndefni sem vegfarendur kunna að búa yfir úr hverfinu föstudaginn 28. nóvember frá 18:00 til miðnættis.

Ríkisútvarpið hefur eftir Ævari Pálma Pálmasyni aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu að maðurinn sé grunaður um manndráp. Vettvangsrannsókn sé umfangsmikil, tengsl við undirheima séu nú könnuð. Greint var frá því í dag að fallist hefði verið á kröfu lögreglu um áframhaldandi gæsluvarðhaldi yfir manninum sem er grískur.

Fyrr í dag sagðist lögregla í tilkynningu leita eftir myndefni frá vegfarendum sem fóru um bifreiðastæði við Kópavogslaug og göturnar Skjólbraut, Borgarholtsbraut, Meðalbraut og Kópavogsbraut föstudaginn 28. nóvember frá klukkan 18:00 og til miðnættis. Einnig biðlaði lögregla til forsvarsmanna öryggismyndavéla sem kunna að vera á umræddu svæði að athuga með myndefni vegna málsins.

Hinir sömu voru vinsamlegast beðnir um að senda upplýsingar um slíkt á netfangið r2a@lrh.is og gefa þar upp bæði nafn sitt og símanúmer. Upplýsingum megi einnig koma á framfæri í síma 444 1000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×