Fótbolti

„Fyrir mér er Flamengo stærra en Real Madrid“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Saul Niguez hefur þegar unnið titla með Flamengo en hér sést hann eftir sigurinn í Copa Libertadores úrslitaleiknum.
Saul Niguez hefur þegar unnið titla með Flamengo en hér sést hann eftir sigurinn í Copa Libertadores úrslitaleiknum. Getty/Rodrigo Valle

Brasilíska félagið Flamengo spilar í dag til úrslita í Álfubikar félagsliða í fótbolta og mótherjinn eru Evrópumeistarar Paris Saint Germain.

Fyrir úrslitaleikinn FIFA Intercontinental Cup ákvað einn leikmanna Flamengo, Saul Niguez, að skjóta á spænska stórliðið Real Madrid. Hann sparaði ekki stóru orðin.

„Fyrir mér er Flamengo stærra en Real Madrid. Real Madrid á enga stuðningsmenn,“ sagði Saul í viðtali við spænska blaðið AS.

„Madrid er frægt fyrir það sem liðið hefur unnið í gegnum tíðina og þess vegna er það þekkt um allan heim,“ sagði Saul.

Miðjumaðurinn, sem spilar nú undir stjórn fyrrverandi liðsfélaga síns Filipe Luis í Brasilíu, gagnrýndi andrúmsloftið á Bernabeu harðlega um leið og hann hrósaði ástríðu suður-amerísku risanna fyrir leik þeirra gegn Paris Saint-Germain.

„En svo ferðu á leikvang Madrid og finnur ekki fyrir neinu. Þú ferð á Maracanã og hann er alltaf fullur af stuðningsmönnum og þú finnur fyrir einhverju,“ bætti Saul við.

Saul spilaði yfir fjögur hundruð leiki með Atletico Madrid áður en hann yfirgaf Evrópu og fann sig að lokum hjá Flamengo í Brasilíu. Saul er því mjög hlutdrægur enda lítil ást á milli Real og Atletico í Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×