Sport

Egg­aldin-bóndinn lét geitunginn ekki koma í veg fyrir sigur

Sindri Sverrisson skrifar
Dirk van Duijvenbode vann spennuleik í 128 manna úrslitum HM í kvöld.
Dirk van Duijvenbode vann spennuleik í 128 manna úrslitum HM í kvöld. Getty/Warren Little

Það var mikil spenna í kvöld á HM í pílukasti þegar fjórir keppendur komust áfram og tryggðu sér sæti í 64 manna úrslitunum.

Tveir leikjanna í kvöld fóru í oddasett, þar á meðal Niðurlandaslagur Hollendingsins Dirk van Duijvenbode og Belgans Andy Baetens, þar sem sá hollenski vann að lokum 3-2 sigur.

Hann lét geitunginn fræga, sem svo oft minnir á sig í Alexandra Palace, ekki trufla sig neitt og var með 111 í meðaltal í lokasettinu.

Van Duijvenbode, stundum kallaður „Aubergenius“ vegna vinnu sinnar sem eggaldin-bóndi, kláraði leikinn í kvöld með því að taka út 102 af miklu öryggi og var ákaft fagnað.

Lokaleikur kvöldsins fór einnig í oddasett en þar vann Connor Scutt gegn Simon Whitlock. Hinn ástralski Whitlock gerði vel í að vinna sig inn í leikinn og jafna í 2-2 en Scutt kláraði einvígið með stæl.

Max Hopp er einnig kominn áfram eftir 3-1 sigur gegn Martin Lukeman, og Jonny Clayton, sem er í 5. sæti heimslistans, vann sömuleiðis 3-1 gegn Adam Lipscombe.

HM í pílukasti er sýnt á Sýn Sport Viaplay og verður áfram keppt alla daga fram að jólum. Bein útsending á morgun hefst klukkan 12:25 og svo aftur klukkan 19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×