Íslenski boltinn

„Verið heiður að spila í appel­sínu­gulu með frá­bærum liðs­félögum“

Sindri Sverrisson skrifar
Ásgeir Eyþórsson lék hundruð leikja fyrir Fylki og bar oft fyrirliðabandið.
Ásgeir Eyþórsson lék hundruð leikja fyrir Fylki og bar oft fyrirliðabandið. vísir/Hulda Margrét

Einn dáðasti sonur Fylkis og annar af fyrirliðum liðsins síðustu ár, Ásgeir Eyþórsson, hefur lagt knattspyrnuskóna á hilluna.

Ásgeir tilkynnti þetta á Instagram-síðu sinni í dag og skrifaði: „Kominn tími á að kalla þetta gott eftir 15 tímabil. Verið heiður að spila í appelsínugulu með frábærum liðsfélögum!“

Ásgeir mun því ekki spila undir stjórn nýs þjálfara Fylkis, Heimis Guðjónssonar, í Lengjudeildinni næsta sumar.

Þessi hávaxni, 32 ára miðvörður lék hundruð leikja fyrir Fylki og bar oft fyrirliðabandið.

Hann á næstflesta leiki fyrir liðið í efstu deild, eða 188, þremur færri en Andrés Már Jóhannesson. 

Þá hefur Ásgeir leikið 61 leik fyrir Fylki í B-deildinni, eða alls 249 deildarleiki fyrir liðið, auk 27 bikarleikja, 74 leikja í deildabikar og 43 leikja í Reykjavíkurmótinu, samkvæmt vef KSÍ. Alls eru þetta 393 leikir og í þeim skoraði hann 32 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×