Innlent

Vistunin sé kerfis­bundið brot á mann­réttindum

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Venjulega er sjúkrabílum ekið inn í þetta rými til að skila farþegum á bráðamóttöku. Rýmið var nýtt til að einangra sjúklinga.
Venjulega er sjúkrabílum ekið inn í þetta rými til að skila farþegum á bráðamóttöku. Rýmið var nýtt til að einangra sjúklinga. Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Félag bráðalækna telur vistun sjúklinga í bílskúr bráðamóttökunnar vera kerfisbundið brot á mannréttindum þeirra. Það sé daglegt viðfangsefni að leysa öryggisógnir vegna plássleysis en vandamálið sé ekki bráðamóttakan sjálf heldur heilbrigðiskerfið í heild.

Á föstudag var greint frá því að vegna fjölda þeirra sem leituðu á bráðamóttöku Landspítalans þyrfti að vista sjúklinga í bílskúr sem er alla jafna nýttur fyrir sjúkrabíla. 

Í yfirlýsingu frá Félagi bráðalækna segir að þeir telji nauðsynlegt að upplýsa stjórnvöld og almenning um það grafalvarlega ástand sem ríki í bráðaþjónustu á Íslandi. Þar er vísað í rannsóknir sem sýna fram á að plássleysi á bráðamóttöku leiði til lengri sjúkrahúsdvalar og hærri dánartíðni.

Félag bráðalækna bætist í hópinn með Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og Læknafélagi Íslands sem hafa einnig gagnrýnt ráðstöfunina.

„Það er orðið daglegt viðfangsefni í starfi okkar á bráðamóttöku að glíma við öryggisógnir í tengslum við alvarlegt plássleysi. Þrátt fyrir það er mikilvægt að undirstrika með skýrir að slíkar aðstæður geta aldrei talist eðlilegar á neinn hátt og eru alltaf óréttlætanleg brot á grundvallarréttindum sjúklinga,“ segir í yfirlýsingunni.

Unnur Ósk Stefánsdóttir, formaður Félags bráðalækna segist hafa verið tilneydd til að tjá sig um málið eftir vistun sjúklinga í bílskúrnum fyrir helgi. Staðan hafi lengi verið afar slæm en hún náð nýjum hápunkti. 

„Við viljum ekki þurfa að skoða sjúklinga frammi á gangi og að þeir geti fengið tækifæri á að tjá sig við lækni þegar þeir eru bráðveikir ekki undir augum annarra. Við viljum ekki þurfa að afklæða og skoða fólk á ganginum heldur,“ segir hún.

„Þetta er flókið vandamál sem við vitum að er flókið á stjórnsýslulegan hátt og margir hafa reynt að laga en þetta fer stöðugt versnandi. Það breytir engu hversu margir tjá sig eða hvað oft, það versnar bara stöðugt.“

Langvarandi kerfisbundinn vandi

Á laugardag var búið að tæma bílskúrinn af sjúklingum en bráðalæknarnir segja að það sé einungis frumkvæði og aðlögunarhæfni yfirmanna og starfsfólks bráðamóttökunnar að þakka að hægt hafi verið að sinna þeim sem leita á bráðamóttökuna.

Í viðtali á Vísi sagði Rafn Benediktsson, framkvæmdastjóri bráðamóttöku Landspítalans, að hann ætti von á því að rýmið yrði nýtt aftur aukist aðflæði hratt. Félagið bendir á að í slíkum aðstæðum sé verið að brjóta grundvallarreglur um trúnað og rétt sjúklinga til einkalífs.

„Félag bráðlækna lítur ekki á bílskúrslausnina sem einstaka frávik á tímum inflúensufaraldurs heldur langvarandi kerfisbundinn vanda sem stjórnvöld verða að axla ábyrgð á.“

Vandamálið sé ekki bráðamóttakan eða Landspítalinn heldur heilbrigðiskerfið sjálft sem sé komið af fótum fram og hafi ekki svigrúm til að takast á við árstíðabundnar sveiflur í umgangspestum.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem álag á bráðamóttöku Landspítalans hefur verið tekið fyrir. Reglulega koma tilkynningar frá spítalanum þar sem fólk er beðið um að leita annað og í október var greint frá að það væru nánast tveir sjúklingar í hverju plássi. Willum Þór Þórsson, þáverandi heilbrigðisráðherra, sagði fyrir rúmu ári síðan að það væri tímabært að stækka bráðamóttökuna.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Sjúklingar ekki lengur í bílageymslu bráðamóttökunnar

Rafn Benediktsson, framkvæmdastjóri bráðamóttöku Landspítalans, segir stöðuna töluvert betri í dag en í gær þegar þurfti að vista sjúklinga sem leituðu á bráðamóttöku spítalans í bílageymslu spítalans. Hann segir alla þá 50 sem eru lagðir inn núna inni á deild og tuttugu á bið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×