Sport

Fimm­tugur og fúl­skeggjaður Svíi stal senunni á HM

Sindri Sverrisson skrifar
Svíinn Andreas Harrysson kom öllum á óvart í kvöld og sló út 12. mann á heimslista.
Svíinn Andreas Harrysson kom öllum á óvart í kvöld og sló út 12. mann á heimslista. Getty/Andrew Redington

Það urðu svo sannarlega óvænt úrslit á HM í pílukasti í kvöld þegar fúlskeggjaður Svíi, í 114. sæti heimslistans, gerði sér lítið fyrir og sló út Englendinginn Ross Smith sem er í 12. sæti listans, með frábærri frammistöðu.

Þetta var svo sannarlega kvöldið hans „Dirty Harrysson“, eða Andreas Harrysson, en þessi fimmtugi Svíi var að keppa í fyrsta sinn á HM, í Alexandra Palace í kvöld.

Harrysson var lentur 2-1 undir eftir fyrstu þrjú settin, og auk þess lentur 2-1 undir í fjórða setti, en náði að snúa við blaðinu og vinna að lokum 3-2 sigur. Smith fékk sex sinnum tækifæri til að tryggja sér sigur en tókst ekki að nýta sér það.

Sigurinn tryggir Harrysson að lágmarki 15.000 pund, eða jafnvirði 2,5 milljóna króna, og hann á svo eftir að keppa aftur þegar 64 manna úrslitin hefjast, gegn Frakkanum Thibault Tricole eða Japananum Motomu Sakai.

Englendingurinn Ricky Evans vann afar öruggan 3-0 sigur gegn Man Lok Leung frá Hong Kong. Gian van Veen vann Cristo Reyes 3-1 og Damon Heta hafði svo betur af öryggi gegn Steve Lennon í leik sem lauk núna rétt fyrir miðnætti, 3-1.

Spilað verður áfram á hverjum degi næstu daga, í beinni útsendingu á Sýn Sport Viaplay.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×