Fótbolti

Sakna Orra enn sárt og vand­ræðin aukast

Sindri Sverrisson skrifar
Orri Steinn Óskarsson náði aðeins að spila þrjá leiki í upphafi tímabils áður en hann meiddist.
Orri Steinn Óskarsson náði aðeins að spila þrjá leiki í upphafi tímabils áður en hann meiddist. Getty/Juan Manuel Serrano

Real Sociedad hefur verið í miklu basli í spænsku 1. deildinni í fótbolta í vetur, í fjarveru íslenska landsliðsfyrirliðans Orra Steins Óskarssonar vegna meiðsla. Það styttist í Orra en Real tapaði þriðja deildarleiknum í röð í kvöld.

Liðið tók á móti Girona í kvöld og var 1-0 yfir þar til korter var eftir, með marki frá Goncalo Guedes í fyrri hálfleik.

Úkraínumaðurinn Viktor Tsygankov náði hins vegar að tryggja gestunum sigur með tveimur mörkum.

Eftir þrjú töp í röð er Real Sociedad með 16 stig í 14. sæti, aðeins tveimur stigum fyrir ofan Mallorca sem er í fallsæti og nú eiga næstu lið fyrir neðan leik til góða um helgina. Girona er í 17. sæti með 15 stig.

Orri hefur nánast ekkert getað spilað á leiktíðinni eftir að hafa meiðst illa í læri og missti til að mynda af allri undankeppni HM.

Bakslag kom í upphaflegu meiðslin en spænskir miðlar segja að Orri hafi sett stefnuna á að snúa aftur til keppni í síðasta leiknum fyrir jól, gegn Levante 20. desember.

Eftir þann leik tekur við stutt jólafrí eða þar til að Real Sociedad tekur á móti Atlético Madrid 4. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×