Enski boltinn

Salah snýr aftur eftir sátta­fundinn

Sindri Sverrisson skrifar
Mohamed Salah snýr aftur í leikmannahóp Liverpool á morgun.
Mohamed Salah snýr aftur í leikmannahóp Liverpool á morgun. getty/Lewis Storey

Mohamed Salah verður í leikmannahópi Liverpool á morgun þegar liðið mætir Brighton, eftir fund með stjóranum Arne Slot í dag.

Liverpool tekur á móti Brighton á morgun klukkan 15, á Anfield, í síðasta leiknum áður en Salah heldur svo á Afríkumótið með egypska landsliðinu.

Salah var tekinn út úr leikmannahópi Liverpool fyrir sigurinn gegn Inter í Meistaradeild Evrópu í vikunni, eftir að hafa látið allt flakka í viðtali eftir 3-3 jafnteflið við Leeds um síðustu helgi.

Salah hafði þá verið á varamannabekk Liverpool þrjá leiki í röð, og aðeins komið við sögu í einum þeirra. Hann sagði samband sitt við Slot brostið og að verið væri að gera hann að blóraböggli vegna slæms gengis Liverpool.

Slot vildi lítið tjá sig um stöðu Salah á blaðamannafundi í dag en greindi þar frá því að þeir myndu funda í dag. 

„Við munum eiga fund núna á eftir. Útkoma þess fundar mun ákvarða hver næstu skref verða,“ sagði Slot í morgun og kvaðst vonast til þess að næst þegar hann þyrfti að svara spurningum um Salah yrði Egyptinn við hlið hans.

The Athletic, Sky og fleiri miðlar greina frá því að Salah verði í leikmannahópi Liverpool á morgun og virðist sáttafundurinn í dag því hafa heppnast vel. Ljóst er þó að áfram verður rætt og ritað um framtíð Salah hjá Liverpool næstu vikurnar, nú þegar styttist í að félagaskiptaglugginn opnist í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×