Innherji

Fram­taks­sjóður hjá VEX fjár­festir í Kóða og verður stærsti hlut­hafinn

Hörður Ægisson skrifar
Thor Thor, forstjóri Kóða, Davíð Stefánsson, fjárfestingarstjóri hjá VEX, og Benedikt Ólafsson, einn eigenda VEX.
Thor Thor, forstjóri Kóða, Davíð Stefánsson, fjárfestingarstjóri hjá VEX, og Benedikt Ólafsson, einn eigenda VEX.

Framtakssjóður í rekstri VEX hefur gengið frá fjárfestingu í hugbúnaðarfyrirtækinu Kóða, sem rekur meðal annars Kelduna, og verður eftir kaupin stærsti einstaki hluthafinn í félaginu.

Þeir sem standa að sölu á hluta af bréfum sínum í Kóða eru stofnendur félagsins – þeir Dagur Gunnarsson, Thor Thors, Tómas Tómasson og Örn Þórðarson – en auk þess selja Pétur Thors og félag í eigu Höskuldar Tryggvasonar allan hlut sinn. Stofnendurnir fjórir munu áfram eiga stóran hlut í Kóða og koma að rekstri þess, að því er segir í tilkynningu.

Kóði var stofnað árið 2009 og um 30 manns starfa hjá félaginu. Félagið býður upp á fjölbreyttar fjártæknilausnir ásamt því að safna, greina og dreifa markaðsgögnum. Kóði á og rekur meðal annars verðbréfaviðskiptakerfið KODIAK OMS, KODIAK Excel, útboðskerfið IPO, Hluthafaskrá og Kelduna sem er heimsótt af 120 þúsund notendum mánaðarlega. Vörur félagsins eru yfir 20 talsins og meira en 600 fyrirtæki nýta vörur og þjónustu Kóða.

Veltan í ár um einn milljarður 

Áætluð velta félagsins á yfirstandandi ári er um einn milljarður króna – í fyrra var hún um 828 milljónir – og um 85 prósent tekna eru áskriftartekjur. Ekki er greint frá kaupverðinu en á árinu 2024 var EBITDA-hagnaður Kóða tæplega 200 milljónir.

Þróunarstarf félagsins hefur skapað raunverulegt virði fyrir viðskiptavini, leyst ýmis viðfangsefni fjármálamarkaðarins og veitt aðgang að markaðsgögnum á hagkvæman hátt.

Thor Thors, forstjóri Kóða og sem var fyrir söluna stærsti einstaki hluthafinn með ríflega 26 prósenta hlut, segir þetta vera ánægjuleg tímamót fyrir Kóða. Starfsfólkið sé á síðustu 16 árum búið að byggja upp öflugt hugbúnaðarhús sem er lykilþjónustuveitandi á íslenskum fjármálamarkaði.

„Þróunarstarf félagsins hefur skapað raunverulegt virði fyrir viðskiptavini, leyst ýmis viðfangsefni fjármálamarkaðarins og veitt aðgang að markaðsgögnum á hagkvæman hátt. Lausnir félagsins eru notaðar af öllum fjármálafyrirtækjum landsins auk þess sem eignastýringarfélög, lífeyrissjóðir og tryggingafélög eru stórir notendur. Við erum gríðarlega stolt af því hvar félagið er statt í dag og teljum tímapunktinn góðan til að fá inn öflugan aðila til að taka þátt í næsta kafla félagsins með okkur.“

Benedikt Ólafsson, einn eigenda sjóðastýringarfyrirtækisins VEX, segir að það sé búið að vera afar áhugavert að fylgjast með vexti Kóða á síðustu árum og sjóðurinn telji áfram vera fjölmörg tækifæri til frekari vaxtar. „Félagið býr yfir reynslumiklum hópi starfsmanna sem við ætlum okkur að styðja í frekari sókn á innlendum markaði.“

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka og BBA//Fjeldco voru ráðgjafar félagsins og seljenda í viðskiptunum. Deloitte og LEX lögmannsstofa veitti kaupanda ráðgjöf.

VEX rekur í dag tvo framtaksjóði – VEX I og VEX II – en síðarnefndi sjóðurinn, sem stendur að baki kaupunum í Kóða og er fimmtán milljarðar að stærð, hefur fyrir fjárfest í Kaptio.


Tengdar fréttir

Öryggis­mið­stöðin metin á 3,8 milljarða í kaupum VEX á nærri helmings­hlut

Þegar framtakssjóðurinn VEX gekk frá kaupum á samtals um 45 prósenta hlut í Öryggismiðstöðinni um mitt árið í fyrra af breiðum hópi fjárfesta þá var allt hlutafé fyrirtækisins verðmetið á liðlega 3,8 milljarða í viðskiptunum. Sjóðurinn stóð einnig að fjárfestingu fyrir meira en 1,6 milljarða í bandaríska skyrframleiðandanum Icelandic Provision á liðnu ári sem tryggði honum yfir tíu prósenta hlut í félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×