Enski boltinn

„Hvað getur Slot gert?“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Albert Brynjar telur að Salah verði ekki í leikmannahópi Liverpool í lokaleiknum fyrir Afríkukeppnina.
Albert Brynjar telur að Salah verði ekki í leikmannahópi Liverpool í lokaleiknum fyrir Afríkukeppnina. vísir/getty/sýn

Sérfræðingur Sýnar Sport telur ólíklegt að Mo Salah spili fleiri leiki fyrir Liverpool, ekki nema aðstæður breytist til muna hjá félaginu og að þjálfarinn verði látinn taka poka sinn.

Stórstjarna Liverpool Mo Salah ferðaðist ekki með Liverpool yfir til Mílanóborgar þar sem liðið mætti Inter í Meistaradeild Evrópu í gærkvöldi og vann 1-0 útisigur.

Mikið kurr hefur verið í kringum leikmanninn hjá félaginu eftir að Egyptinn mætti í viðtal eftir 3-3 jafntefli gegn Leeds um helgina. Þá var Salah á varamannabekknum þriðja leikinn í röð. Salah birti þessa mynd á samfélagsmiðlinum X-inu í morgun þar sem sjá má hann einan á æfingasvæði félagsins. Margir telja að Salah spili ekki meira með Liverpool en eftir leik liðsins gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni heldur Salah út á Afríkukeppnina með Egyptum.

„Ég reikna með að hann verði ekki í hóp í þeim leik heldur. Ekki nema eitthvað mikið breytist og það komi út einhver opinber afsökunarbeiðni,“ segir Albert Brynjar Ingason knattspyrnusérfræðingur Sýnar í Sportpakkanum í gærkvöldi.

„Hvað getur Slot gert? Hann getur misst allan trúverðugleika að henda honum bara aftur inn í hóp án þess að fá einhvers konar afsökunarbeiðni. En gengi Liverpool er skelfilegt á tímabilinu. Ef Slot verður látinn fara þá gæti staða Salah breyst. Svo sjáum við hvað er að gerast hjá Real Madrid. Það er talað um að leikur Real á móti City í Meistaradeildinni gæti orðið úrslitaleikur hjá [Xabi] Alonso með hans framtíð. Við gætum allt í einu séð það í janúar að Alonso verði kominn til Liverpool og þá gæti þetta allt breyst með Salah,“ segir Albert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×