Fótbolti

Brassar að gera sömu mis­tökin og áður með að fá ekki leik við Ís­land

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vinicius Junior og félagar í brasilíska landsliðinu eru að leita sér að vináttulandsleikjum fyrir HM á næsta ári.
Vinicius Junior og félagar í brasilíska landsliðinu eru að leita sér að vináttulandsleikjum fyrir HM á næsta ári. Getty/Masashi Hara

Brasilíumenn hafa bara orðið heimsmeistarar í fótbolta ef þeir annaðhvort eru með Pele í liðinu eða spila vináttulandsleik við Ísland í aðdraganda heimsmeistarakeppninnar. Þeir virðast ekki vera enn búnir að átta sig á þessu.

Brasilíumenn vantar einn mótherja til að spila einn af síðustu undirbúningsleikjum sínum fyrir HM næsta sumar en norskir fjölmiðlar segja að þeir séu í samningaviðræðum um vináttulandsleik gegn Noregi.

Í myndbandsviðtali við ESPN Brasil segir íþróttastjórinn Rodrigo Caetano að samningaviðræður séu í gangi um að festa æfingaleik gegn Noregi, sem síðasta prófraun áður en mótið í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó hefst.

„Við erum enn að semja um síðasta undirbúningsleikinn. Við höfum auðvitað okkar óskir. Það krefst enn samningaviðræðna, en okkar fyrsti kostur er norska landsliðið, sem er sterkt lið um þessar mundir,“ sagði Caetano.

„Ég tel líka að þeir muni standa sig mjög vel á HM, þannig að þessi síðasti æfingaleikur yrði góð og krefjandi prófraun fyrir okkur,“ sagði Caetano.

Noregur er eina þjóðin sem Brasilía hefur mætt en aldrei sigrað. Alls hefur Noregur spilað fjórum sinnum gegn Brasilíu. Fyrsta viðureign landsliðanna var í vináttuleik árið 1988 sem lauk með 1-1 jafntefli. Árið 1997 vann Noregur 4-2 á Ullevaal-leikvanginum, ári áður en liðin mættust aftur á HM 1998.

Leikir tveir við Ísland fóru fram í aðdraganda HM 1994 og HM 2002.

Brasilíumenn urðu heimsmeistarar með Pele innanborðs 1958, 1962 og 1970 og þurftu svo að bíða í 24 ár eftir næsta heimsmeistaratitli. Þeir unnu HM-gullið svo aftur átta árum síðan en hafa síðan beðið í önnur 24 ár eftir sjötta heimsmeistaratitlinum.

Brasilíska landsliðið vann 3-0 sigur á Íslandi í aðdraganda heimsmeistaramótsins í Bandaríkjunum 1994 en þarna skoraði Ronaldo, þá aðeins sautján ára gamall, einmitt sitt fyrsta mark fyrir brasilíska landsliðið. Ronaldo fiskaði einnig vítaspyrnu sem gaf annað markið.

Átta árum síðar mætti íslenska landsliðið aftur til Brasilíu, en þá í aðdraganda heimsmeistaramótsins í Japan og Suður-Kóreu, en tapaði þá 6-1. Meðal markaskorara Brassanna í þeim leik voru Kaká, Gilberto Silva og Edilson. Grétar Rafn Steinsson skoraði eina mark Íslands en þetta var hans fyrsti landsleikur.

Brasilía vann Ítalíu í vítakeppni í úrslitaleik HM 1994 og Brasilía vann 2-0 sigur á Þýskalandi í úrslitaleik HM 2002.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×