Innlent

Mikið á­hyggju­efni ef læknar komast ekki er­lendis í sér­nám

Bjarki Sigurðsson skrifar
Fjöldi fólks fer til Svíþjóðar í sérgreinanám en flytur svo aftur til Íslands til að vinna á Landspítalanum.
Fjöldi fólks fer til Svíþjóðar í sérgreinanám en flytur svo aftur til Íslands til að vinna á Landspítalanum. Vísir/Vilhelm

Kennslustjóri sérnáms segir hættu á að skortur verði á læknum í ákveðnum sérgreinum bregðist stjórnvöld ekki við breyttum reglum í Svíþjóð og Noregi. Hann hefur miklar áhyggjur af stöðunni.

Fyrir nokkrum árum þrengdu bæði Svíar og Norðmenn skilyrði fyrir sérnám lækna, sem varð til þess að erfiðara er fyrir íslenska lækna að komast í nám þar úti. Yfir helmingur íslenskra lækna fer í sérnám í Svíþjóð, langflestir í greinum sem ekki er hægt að sérhæfa sig í hér á landi, svo breytingarnar hafa áhrif á töluverðan fjölda.

Aukahindrun þrátt fyrir aðlögun

Sérnámsgrunnurinn hér á landi er svipaður og þess sem krafist er í Svíþjóð en þrátt fyrir það eru Svíar með aukareglur sem eru aukahindrun fyrir Íslendinga, og krefst þess meðal annars að þeir starfi í Svíþjóð um einhvern tíma áður en námið hefst. Theódór Skúli Sigurðsson, kennslustjóri sérnáms í svæfinga- og gjörgæslulækningum á Íslandi, hefur áhyggjur af stöðunni.

„Íslendingar hafa notið góðs síðustu áratugi af þessu kerfi, að fara út og læra sitt sérnám. Nú er eins og það sé verið að herða þetta og stöðva að Íslendingar og aðrir sem eru að koma að utan séu að fara í sérnám erlendis. Þetta á sérstaklega við Noreg og Svíþjóð,“ segir Theódór. 

Theódór Skúli Sigurðsson er kennslustjóri sérnáms í svæfinga- og gjörgæslulækningum á Íslandi.Vísir

Mikið áhyggjuefni

Það þurfi að bregðast við breyttum veruleika.

„Stefnan hefur verið sú að verið er að búa til sérnám á Íslandi í mörgum greinum, sem er hið besta mál. En í ákveðnum greinum, sem krefjast mikillar sérhæfingar og fjölda sérhæfðra inngripa, þá er þessi möguleiki ekki til staðar á Íslandi. Þess vegna hefur okkar fólk þurft að fara út í meirihluta sérnámsins,“ segir Theódór. 

„Þú getur byrjað í sérnámi á Íslandi en þurft að taka meirihlutann erlendis, til að geta fengið þá reynslu sem er mikilvæg í ákveðnum sérgreinum. En í dag er eins og þetta sé að þrengjast. Það er mikið áhyggjuefni ef það stefnir í það að við getum ekki komið fólki út í þessar greinar.“

Ísland kaupi pláss

Hér gæti orðið skortur á læknum í þessum sérgreinum.

„Ef þetta er raunverulega þannig að Svíar líta þannig á að þeir séu að kosta sérnám fyrir Íslendinga sem fara svo bara heim, eins og hefur kannski verið raunin síðustu ár, þá þurfa Íslendingar kannski að koma á móti. Það er spurning hvort íslenska ríkið þurfi í samstarfi við Svía að kaupa ákveðinn fjölda sérnámsstaða svo Íslendingar komist út að læra. Íslenska ríkið greiði þá hluta þess kostnaðar sem felst í því að sérmennta fólk í ákveðnum greinum,“ segir Theódór. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×