Handbolti

Eiður í stuði í stór­sigri

Valur Páll Eiríksson skrifar
Eiður Rafn Valsson var markahæstur á vellinum á Akureyri í kvöld.
Eiður Rafn Valsson var markahæstur á vellinum á Akureyri í kvöld. Vísir/Anton Brink

Fram vann öruggan sigur á Þór á Akureyri í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. 

Fram hefur átt í töluverðum vandræðum á leiktíðinni og óhætt að segja að titilvörn liðsins hafi ekki gengið vel.

Liðið byrjaði þó betur gegn nýliðum Þórs í dag og leiddi 6-2 eftir um tíu mínútna leik. Eftir það litu Framarar ekki um öxl og munurinn fimm mörk í hálfleik, 16-11.

Gestirnir gengu á lagið eftir hlé og bættu enn frekar við forystu sína gegn Þórsliði sem hreinlega hrundi í seinni hálfleik.

Leiknum lauk með 14 marka sigri gestanna, 34-20. Hægri hornamaðurinn Eiður Rafn Valsson var markahæstur Framara með átta mörk.

Fram vinnur þar með sjötta sigur tímabilsins og fer upp fyrir Stjörnuna í sjöunda sæti deildarinnar, þremur stigum frá FH og ÍBV sem eru í sætunum fyrir ofan.

Þór er áfram í umspilssæti um fall, því ellefta, með sjö stig – tveimur á undan botnliði ÍR en stigi frá HK sem er í 10. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×