Menning

Vatn og brauð ís­lenskra fanga: Hvað elda menn í ís­lenskum fangelsum?

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Vatn og brauð er ný uppskriftabók með fimmtíu uppskriftum fanga í íslenskum fangelsum.
Vatn og brauð er ný uppskriftabók með fimmtíu uppskriftum fanga í íslenskum fangelsum. Aðsend/Vilhelm/Vísir

Uppskriftabókin Vatn og Brauð - Fangaréttir kom út í dag en þar er að finna fimmtíu uppskriftir eftir 35 fanga í íslenskum fangelsum. Fangavörðurinn Margrét Birgitta Davíðsdóttir er hugmyndasmiður og ritstjóri bókarinnar en bókin kemur loksins út fimm árum eftir að hún fékk hugmyndina.

„Það hafa verið gefnar út matreiðslubækur í fangelsum á Norðurlöndunum í töluverðan tíma sem við höfum oft horft á óskað þess að við gætum gefið út hér. Sú hugmynd hefur legið í loftinu í töluverðan tíma,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu - félags fanga, um aðdraganda bókarinnar.

Guðmundur Ingi er búinn að næla sér í eintak.

„Það er fangavörður á Litla-Hrauni sem heitir Margrét Birgitta Davíðsdóttir sem er hugmyndasmiðurinn á bak við þetta. Í kringum 2020 þá byrjar hún að huga að þessu og ætlar að setja þetta verkefni af stað. Við áttum nokkra fundi út af þessu þá en svo skall á Covid og þetta reyndist ómögulegt,“ segir hann.

„En svo núna á þessu ári ákvað hún að dusta rykið af þessari hugmynd og óskaði eftir því við yfirmenn sína að fá að gera þetta verkefni, svo talaði hún við Jóa Fel og Auði í Fangaverk. Þau ákváðu að vinna þetta saman og Margrét ritstýrir bókinni.“

Vatn og brauð er prentuð í þúsund eintökum og er hægt að kaupa hana á Fangaverk.is sem er netverslun með vörum sem fangar á Litla-Hrauni, Hólmsheiði og Sogni framleiða. Til stendur að dreifa bókinni í fleiri búðir á næstunni og vonar Guðmundur að hún verði jafnvel að reglulegum gesti í jólabókaflóðinu á næstu árum.

Fangar elda flestir sjálfir

Fréttir bárust af því í vor að Jói Fel hefði verið ráðinn sem yfirmaður mötuneytisins á Litla-Hrauni sem sér einnig um matseld fyrir fangelsið á Hólmsheiði. Mötuneytið eldar þó ekki fyrir alla fangana því flestir elda sinn eigin mat sjálfir.

„Jói eldar fyrir starfsmennina, þá sem eru í einangrun og þá sem ekki geta eldað sjálfir eða vilja það ekki. Annars elda fangar bara sjálfir á sínum göngum,“ segir Guðmundur.

„Þetta breyttist árið 2008 þegar Margrét Frímannsdóttir var forstöðumaður á Litla-Hrauni, þá byrjuðu allir fangar að elda sjálfir. En þetta hafði reyndar verið prófað í tvö ár frá 2006 á einum gangi, bara til að sjá hvort þetta myndi virka,“ segir hann.

„Þetta var þá byrjað í norrænu fangelsunum og þess vegna var verið að prófa þetta hér. Þetta var bæði ódýrara, jók virkni fanga og er grunnþáttur sem fólk þarf að kunna.“

„Mig langar svo að kenna mömmu minni að gera svona“

„Ég held að Jói Fel hafi farið um ganga fangelsanna, leiðbeint mönnum, komið með hugmyndir og hjálpað þeim. Síðan voru keypt hráefni, þetta útfært og teknar myndir af þessu,“ segir Guðmundur um uppskriftasöfnunina.

„Þetta er ótrúlega breiður hópur af fólki, alls konar fólk úr öllum menningarheimum og þetta eru réttirnir sem menn eru að elda og fá sér í fangelsunum. Það er líka gaman hvað menn byrja að keppast um að æfa sig og standa sig,“ segir hann um uppskriftirnar.

Fá menn bara vatn og brauð?

Að sögn Guðmundar læra margir fangar að elda í fangelsunum. Margir séu duglegir að þróa sig áfram í matreiðslu og fái oft útrás fyrir sköpunarkraft þar.

„Ég man bara sjálfur að ég lærði mikið að elda í fangelsi í Danmörku, lærði rétti frá öðrum og kenndi sjálfur öðrum að elda. Stundum komu menn til mín og sögðu: „Hey, getur þú kennt mér, mig langar svo að kenna mömmu minni að gera svona.“ Svo eru menn að skiptast á uppskriftum og starfsfólkið jafnvel líka að fá uppskriftir frá föngum,“ segir hann.

„Síðan eru alltaf einn eða tveir í fangelsunum sem eru mjög góðir að elda og þeir stofna yfirleitt matarklúbba. Þeir sem elda eru aðalkarlarnir á ganginum, sem er mjög gaman.“

Litla-Hrauns-börgerinn sennilega vinsælastur

Guðmundur er þegar búinn að glugga í bókina og segir þar fjölmarga góða rétti, ýmsa kannast hann við en aðrir séu exótískari.

„Ég á eftir að prófa marga réttanna en þarna eru réttir eins og Sýknudómssteikin, Jailhouse Rock-kjúklingurinn og það sem er einna vinsælast er Litla-Hrauns-börgerinn sem er svaðalegur borgari,“ segir Guðmundur.

Fleiri spennandi réttir eru í bókinni, Guðmundur nefnir kjöt í rimla-karrýi, lasagna í járnum og osta- og makkarónurétt smyglaðan inn frá Rússlandi. Hér að neðan má svo sjá uppskrift að einum rétti í bókinni:

Uppskrift að Jailhouse Rock-kjúklingi

Hráefni:

  • 1 pakki kjúklingalundir
  • 1–2 stk. egg
  • Salt og pipar
  • Kornflex

Gráðostasósa

  • 1 pakki gráðostur
  • 150 ml rjómi
  • 1 msk. hunang
  • Salt og pipar

Aðferð:

Setjið kjúklinginn í plast og lemjið aðeins niður með höndunum til að fletja út. Sláið eggjunum saman með gaffli og kryddið með salti og pipar. Myljið kornflexið mjög smátt í skál. Setjið kjúklinginn í eggin og þaðan beint í kornflexið og veltið vel saman. Setjið í eldfast mót og eldið við 200°C í ca. 25 mínútur.


Gráðostasósa

Setjið allt saman í pott, náið suðunni upp og sjóðið við lágan hita í ca. 10 mínútur eða þar til sósan fer að þykkna.


BBQ sósa

Setjið kjúklinginn á fallegan disk og berið fram með sósunum. Það er gott að hafa þær báðar með kjúklingnum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.