Enski boltinn

Aston Villa með endur­komu í miklum markaleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ollie Watkins hefur átt erfitt tímabil en skoraði tvö mörk fyrir Aston Villa í kvöld.
Ollie Watkins hefur átt erfitt tímabil en skoraði tvö mörk fyrir Aston Villa í kvöld. Getty/Alex Pantling

Aston Villa lenti 2-0 undir á útivelli á móti Brighton & Hove Albion í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld en kom til baka og landaði enn einum sigrinum. Nottingham Forest og Crystal Palace unnu bæði 1-0 sigra.

Aston Villa vann 4-3 útisigur á Brighton & Hove Albion. Villa-menn misstu markvörð sinn í meiðsli í upphitun og lentu svo 2-0 undir.

Jan Paul van Hecke skoraði fyrsta markið á 9. mínútu og annað markið var sjálfsmark á 29. mínútu.

Ollie Watkins jafnaði metin með tveimur mörkum fyrir hálfleik og Amadou Onana skallaði liðið í 3-2 forystu á 60. mínútu. Donyell Malen skoraði fjórða mark Villa á 78. mínútu en Van Hecke minnkaði muninn með sínu öðru marki.

Staðan var 4-3 síðustu sjö mínútur leiksins en heimamenn náðu ekki að jafna metin. Þetta var fjórði sigur Aston Villa í röð og liðið er í þriðja sæti deildarinnar, stigi á eftir Manchester City og sex stigum á eftir toppliði Arsenal.

Daniel Munoz tryggði Crystal Palace 1-0 útisigur á Burnley þegar hann skallaði inn fyrirgjöf Marc Guehi á fjærstönginni á 44. mínútu. Palace-menn eru í fimmta sætinu.

Igor Jesus skoraði eina markið á 72. mínútu þegar Nottingham Forest vann 1-0 útisigur á Wolves. Það var dæmt skallamark af Jesus í fyrri hálfleik en hann bætti úr því með að skalla hann inn í seinni hálfleiknum. Þetta var þriðji sigur Forest í síðustu fjórum leikjum og þeir eru í sextánda sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×