Enski boltinn

Andri Lucas búinn að skora meira en pabbi sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen fagnar marki sínu fyrir Blackburn Rovers á móti Ipswich Town á Ewood Park en til hliðar við hann er faðir hans Eiður Smári Guðjohnsen að fagna marki með Bolton.
Andri Lucas Guðjohnsen fagnar marki sínu fyrir Blackburn Rovers á móti Ipswich Town á Ewood Park en til hliðar við hann er faðir hans Eiður Smári Guðjohnsen að fagna marki með Bolton. Getty/Alex Dodd/David Rawcliffe

Andri Lucas Guðjohnsen skoraði á þriðjudagskvöldið sitt sjötta mark í ensku B-deildinni á tímabilinu og með því gerði hann betur en faðir sinn þegar hann steig sín fyrstu spor í enska boltanum á sínum tíma.

Andri Lucas er 23 ára gamall í dag en faðir hans var tvítugur þegar hann kom til Englands.

Eiður Smári Guðjohnsen kom til enska félagsins Bolton Wanderers frá KR haustið 1998 og var þarna að koma til baka eftir erfið ökklameiðsli sem höfðu herjað á hann í meira en tvö ár. Það tók tíma fyrir Eið að komast í alvöru form en hann nýtti tækifærið þegar það kom í marsmánuði.

Eiður skoraði í tveimur fyrstu deildarleikjunum eftir að hann fékk tækifæri með Bolton á ný og endaði með 5 mörk í 14 deildarleikjum á þessari fyrstu leiktíð sinni með Bolton.

Andri Lucas var einmitt að spila fjórtánda deildarleikinn með Blackburn Rovers þegar hann skoraði á móti Ipswich á þriðjudagskvöldið.

Andra Lucas tók ekki að skora í fyrstu sex leikjunum með Blackburn en hefur síðan skorað sex mörk í síðustu átta deildarleikjum.

Eiður var þarna kominn á flug. Hann skoraði þrettán deildarmörk tímabilið 1999 til 2000 og var síðan seldur til Chelsea um sumarið 2000. Þar varð hann síðan að stórstjörnu og vann ensku deildina tvisvar sinnum.

Andri Lucas heldur vonandi áfram á sömu braut og fær nóg af leikjum til að bæta þennan árangur föður síns enn frekar.

  • Fyrsta tímabil Eiðs Smára Guðjohnsen í Englandi
  • Með Bolton í ensku B-deildinni 1998-99: 5 mörk í 14 leikjum
  • Fyrsta tímabil Andra Lucas Guðjohnsen í Englandi
  • Með Blackburn í ensku B-deildinni 2025-26: 6 mörk í 14 leikjum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×