Fótbolti

Knattspyrnukona í Íslendingaliðinu hreinsuð af öllum á­sökunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ónefndur leikmaður Vålerenga fékk góðar fréttir og máli hennar verður vísað frá.
Ónefndur leikmaður Vålerenga fékk góðar fréttir og máli hennar verður vísað frá. Getty/Marius Simensen

Leikmaður kvennaliðs norska félagsins Vålerenga hefur verið hreinsuð af öllum ásökunum í lyfjaeftirlitsrannsókn eftir að hafa óvart innbyrt bannað efni sem var í gúmmíkurli af gervigrasvelli.

Þetta voru góðar fréttir fyrir Vålerenga sem varð norskur bikarmeistari um síðustu helgi. Sædís Rún Heiðarsdóttir og Arna Eiríksdóttir spila báðar með liðinu en Arna var þó enn í FH þegar málið kom upp.

Þetta kemur fram á heimasíðu norsku lyfjaeftirlitsstofnunarinnar. Leifar af efninu dímetýlbútýlamíni (DMBA) fundust hjá átta leikmönnum eftir leik LSK Kvinner og Vålerenga í efstu deild kvenna þann 22. apríl á þessu ári.

Einn leikmaður var með gildi yfir leyfilegum mörkum. Ástæðan fyrir jákvæða lyfjaprófinu var gúmmíkurl í íþróttahúsinu.

„Við teljum að íþróttamaðurinn hafi ekki getað séð fyrir möguleikann á að innbyrða ólöglega efnið með því að spila á gervigrasvöllum. Með það að leiðarljósi gefur regluverkið færi á að taka ákvörðun sem leiðir ekki til þess að íþróttamaðurinn verði útilokaður frá íþróttum,“ sagði Håvard Kampen, formaður ákærunefndarinnar.

DMBA er örvandi efni sem er bannað í keppni.

Eftir að málið kom upp var bannað að spila leiki inni í Lilleström-höllinni og Norðmenn hafa nú hafið átak sem á að losa alla gervigrasvelli landsins við umrætt gúmmíkurl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×