Veður

Slær í storm suðaustan­til en höfuð­borgar­svæðið í skjóli

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður um eða undir frostmarki.
Hiti á landinu verður um eða undir frostmarki. Vísir/Anton Brink

Það stefnir í meiri vind en verið hefur á landinu undanfarið og er að ganga í norðaustan strekking eða allhvassan vind nokkuð víða.

Á vef Veðurstofunnar segir að það muni slá í storm í vindstrengjum á suðaustanverðu landinu og hefur verið gefin út gul viðvörun vegna þessa á Suðausturlandi til miðnættis.

„Taka skal fram að stærstur hluti höfuðborgarsvæðisins verður væntanlega í skjóli með meinlitlum vindi í dag. Lítil eða engin úrkoma vestanlands, annars staðar má búast við snjókomu eða slyddu með köflum. Hiti um eða undir frostmarki.

Á morgun snýst síðan í norðanátt, víða 8-13 m/s, en 13-18 austanlands. Norðanáttin ber kalt heimskautaloft yfir okkur með frosti á bilinu 3 til 8 stig. Búast má við éljum á Norður- og Austurlandi, annars staðar þurrt og bjart veður. Seinnipartinn á morgun lægir vindinn smám saman og annað kvöld stytta élin upp. Þá herðir einnig enn frekar á frostinu,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Norðan 8-13 m/s, en 13-18 austanlands. Él á Norður- og Austurlandi, en léttskýjað sunnan heiða. Frost víða 3 til 8 stig. Lægir smám saman síðdegis og syttir upp um kvöldið og herðir á frosti.

Á laugardag: Breytileg átt 3-8, víða bjart í veðri og talsvert frost. Austan 5-10 og snjókoma með köflum á Suðausturlandi og Suðurlandi eftir hádegi.

Á sunnudag: Gengur í austan 8-13, en 13-18 með suðurströndinni. Snjókoma eða slydda með köflum, en úrkomulítið vestan- og norðanlands. Frostlaust syðst á landinu, annars frost 0 til 8 stig.

Á mánudag (fullveldisdagurinn): Austan og norðaustan 8-15 m/s. Él á austanverðu landinu, slydda eða rigning sunnanlands, en þurrt að kalla á Vestur- og Norðurlandi. Hiti kringum frostmark.

Á þriðjudag og miðvikudag: Norðaustanátt með dálitlum éljum norðaustan- og austanlands, en léttskýjað um landið sunnan- og vestanvert. Frost víða 0 til 4 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×