Sport

Dæmd í langt bann fyrir að leyna því hvar hún væri

Sindri Sverrisson skrifar
Penny Oleksiak fær ekki að keppa aftur fyrr en í júlí árið 2027 en það verður í tæka tíð fyrir næstu Ólympíuleika.
Penny Oleksiak fær ekki að keppa aftur fyrr en í júlí árið 2027 en það verður í tæka tíð fyrir næstu Ólympíuleika. Getty/Ian MacNicol

Hin 25 ára gamla sundkona Penny Oleksiak, sem á flest verðlaun kanadískra kvenna á Ólympíuleikum, hefur verið úrskurðuð í tveggja ára bann fyrir brot á reglum um lyfjapróf.

Oleksiak varð algjör stjarna aðeins 16 ára gömul, þegar hún rakaði inn verðlaunum á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016 og varð meðal annars Ólympíumeistari í 100 metra skriðsundi.

Oleksiak og kanadíska sundsambandið hafa þvertekið fyrir að hún hafi nokkurn tímann gerst sek um að neyta ólöglegra, árangursaukandi lyfja. 

Hún þarf engu að síður að sæta tveggja ára banni en það er vegna þess að hún hefur í þrígang gerst sek um að veita ekki réttar upplýsingar um dvalarstað sinn hverju sinni, svo að hægt væri að kalla hana inn í lyfjapróf hvenær sem er.

Penny Oleksiak varð að þjóðhetju í Kanada þegar hún vann gull í Ríó árið 2016, aðeins 16 ára gömul. Þær Simone Manuel hlutu báðar gull í 100 metra skriðsundi.Getty/Clive Rose

Brotin áttu sér stað frá október í fyrra og fram í júní á þessu ári, og samþykkti Oleksiak bann frá keppni frá og með júlí á meðan að málið var til rannsóknar.

Nú hefur hún verið dæmd í tveggja ára bann en það þýðir jafnframt að hún má keppa á næstu Ólympíuleikum sem fram fara í Los Angeles sumarið 2028. Banninu lýkur sem sagt 14. júlí 2027.

Samþykkja bannið en hafna því að hún hafi neytt ólöglegra lyfja

„Þótt við tökum skýringu Penny gilda um að þessi mistök séu óviljandi og að hún hafi ekki notað ólögleg efni, þá eru lyfjareglur til staðar til að tryggja jafna samkeppnisstöðu íþróttafólks, segir Suzanne Paulins, yfirmaður hjá kanadíska sundsambandinu.

Oleksiak hefur ekki tjáð sig um bannið sjálf en sagði eftir að ljóst var að hún yrði ekki með á HM í sumar að hún hefði ekki neytt ólöglegra lyfja.

„Ég vil leggja áherslu á að dvalarstaðamálið snýst ekki um neins konar ólögleg efni. Það snýst um hvort ég hafi uppfært upplýsingarnar mínar rétt,“ sagði kanadíska sundkonan þá.

Oleksiak hefur alls unnið til sjö verðlauna á Ólympíuleikum, flest allra kanadískra kvenna, auk fjölda verðlauna á heimsmeistaramótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×