Golf

Gríðar­leg fjölgun kylfinga: „Að­staðan sprungin í höfuð­borginni“

Aron Guðmundsson skrifar
Hulda Bjarnadóttir er forseti GSÍ
Hulda Bjarnadóttir er forseti GSÍ Vísir/Samsett

Golf­sam­band Ís­lands hefur sett sér nýja stefnu til ársins 2030 í stað fyrri stefnu sem átti að gilda til ársins 2027. Stöðug fjölgun skráðra kylfinga spilar þar stóra rullu en aðstaðan á höfuð­borgar­svæðinu er sprungin að sögn for­seta sam­bandsins.

Skráðum kylfingum golfíþróttarinnar hér á landi hefur fjölgað um rúm­lega eLlefu þúsund frá 2019 eða um 65% frá þeim fjölda sem skráður var það árið.

„Þetta er í raun ástæða þess að við ákveðum að endur­skil­greina stefnuna okkar og mark­miðin, af því að vöxtur hefur haldið áfram,“ segir Hulda Bjarna­dóttir, for­seti GSÍ í sam­tali við íþrótta­deild. „Maður var alltaf að búast við því að það færi að róast yfir þessu en það hefur ekki gerst. Og eins og þú vitnar þarna í, ellefu þúsund nýir iðk­endur á þessum tíma­bili frá árinu 2019. Það er slatti og kallar á haus­verk að vissu leiti.“

Og mun sam­bandið, í sam­starfi við golf­klúbba landsins þurfa að finna lausnir því kylfingum hefur fjölgað stöðugt ,og eru þeir hlut­falls­lega flestir á höfuð­borgar­svæðinu, en þar er aðstaðan sprungin og efla þarf sam­talið við sveitarfélögin.

Leita þurfi leiða til þess að sor­tera byrj­endur frá þeim sem lengra eru komnir í íþróttinni og um leið huga að ung­viðinu og af­reks­fólki, tryggja að nýliðun sé góð. Að­gerðir sem hafi ekki þurft að grípa til áður en þekkist þó sem dæmi í öðrum löndum því þessi staða eins­korðast ekki aðeins við Ís­land.

„Fyrstu skila­boðin eru þau að að­gengi skortir en þarna eru iðk­endur til staðar. Við erum að flokka þetta betur þannig að byrj­endur fari á minni vellina og svo fram­vegis. Það hefur alveg verið rými til þess hjá klúbbunum að hugsa þetta öðru­vísi. Þannig að við höfum geta tekið á móti aðeins fleirum en það er sprungið í höfuð­borginni. Það er rými strax og komið er út fyrir höfuð­borgina og þá erum við líka að stilla aðeins markaðs­setninguna af þangað. Að fara út fyrir höfuð­borgina og for­gangs­raða börnum og ung­lingum alveg klár­lega. En aðstaðan er sprungin það er bara þannig.“

Metnaðarfull golfmiðstöð

Í svona ár­ferði verði að passa að okkar af­reks- og lands­liðs­fólk hafi tækifæri til þess að sinna sinni íþrótt eins vel og kostur er á. Golf­sam­band Ís­lands er með metnaðar­fulla hug­mynd um byggingu Golf­miðstöðvar sem gæti tryggt ís­lensku af­reks­starfi aðstöðu til framtíðar.

„Núna erum við að for­gangs­raða þessari af­rek­smiðstöð golfsins, hvernig aðstöðu þurfum við að halda ef við bara ein­blínum á og for­gangs­röðum á þá leið að tryggja alla­vegana okkar af­reks- og lands­liðum aðstöðu. Ef við horfum til fimm, tíu eða fimmtán ára og vöxturinn heldur áfram erum við bara komin í þrot. Við getum ekki enda­laust komist að alls­staðar og þurfum því kannski líka að huga að alþjóða keppnis­haldi og aðstöðu fyrir af­reks­starfið og okkar helstu kylfinga.“

Viðtal við Huldu má sjá í spilaranum hér ofar í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×