Enski boltinn

Hægribakvarðarkrísa hjá Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Conor Bradley var með fyrirliðabandið hjá Norður-Írum í þessum glugga en kom ekki heill til baka.
Conor Bradley var með fyrirliðabandið hjá Norður-Írum í þessum glugga en kom ekki heill til baka. Getty/Liam McBurney

Arne Slot knattspyrnustjóri Liverpool þarf enn á ný að hugsa út fyrir kassann til að leysa hægri bakvarðarstöðuna hjá liðinu.

Slot sagði frá því á blaðamannafundi í dag að bæði Norður-Írinn Conor Bradley og Þjóðverjinn Florian Wirtz hafi orðið fyrir vöðvameiðslum með landsliðum sínum á síðustu dögum og missa þeir því af leik helgarinnar

Meiðsli Bradley eru verri en meiðsli Wirtz og Slot býst við að vera án Jeremie Frimpong og Bradley næstu sjö leiki eða fram yfir áramót.

Frimpong er líka hægri bakvörður eins og Bradley en hann hefur verið lengi frá vegna meiðsla aftan í læri.

Þetta þýðir að Liverpool hefur aðeins Joe Gomez eftir heilan til að spila hægri bakvörðinn en Gomez er samt að upplagi miðvörður sem hefur þó leyst hægribakvarðastöðuna margoft.

Gomez er því einnig notaður til að leysa menn af í miðvarðarstöðunni. Ungverjinn Dominik Szoboszlai hefur einnig leyst af í hægri bakverðinum á þessu tímabili en er líka mikilvægur inni á miðjunni ekki síst þegar Wirtz er frá.

Gleðifréttirnar fyrir stuðningsmenn Liverpool eru að brasilíski markvörðurinn Alisson Becker er byrjaður að æfa aftur og mun byrja leikinn ef hann er klár.

Liverpool mætir Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni á morgun í fyrsta leik liðanna eftir landsleikjahlé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×