Fótbolti

Thelma Karen til sænsku meistaranna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thelma Karen Pálmadóttir í búningi Häcken. 
Thelma Karen Pálmadóttir í búningi Häcken.  @bkhackenofcl

Besti ungi leikmaður Bestu deildar kvenna í fótbolta í sumar er á leiðinni í atvinnumennsku.

Sænsku meistararnir í Häcken tilkynntu á miðlum sínum að þeir hafi gert samning við eina efnilegustu knattspyrnukonu Íslands, Thelmu Karen Pálmadóttur

Thelma Karen átti frábært tímabil með FH og vann sér á endanum sæti í íslenska landsliðinu. Hún spilaði sinn fyrsta landsleik í haust og hjálpaði FH að taka silfrið í bæði deild og bikar.

Thelma lék 23 leiki með FH í Bestu deildinni í sumar og var í þeim með átta mörk og fjórar stoðsendingar. Hún skoraði fjögur af þessum fimm mörkum sínum í fimm leikjum sínum í úrslitakeppninni. 

Häcken-konur eru nýbúnar að tryggja sér sænska meistaratitilinn í annað skiptið en þær unnu hann í fyrsta skiptið fyrir fimm árum.

Thelma Karen verður ekki eini Íslendingurinn hjá liðinu því landsliðsmarkvörðurinn Fanney Inga Birkisdóttir hjálpaði liðinu að vinna titilinn í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×