Fótbolti

Trump hitti Ronaldo: Held að sonur minn virði föður sinn að­eins meira núna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo var meðal gesta Donalds Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í gær.
Cristiano Ronaldo var meðal gesta Donalds Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í gær. Getty/Win McNamee/Piaras Ó Mídheach

Cristiano Ronaldo var meðal gesta í Hvíta húsinu í gær þegar hann mætti í veglegan veislukvöldverð til Donalds Trump Bandaríkjaforseta.

Heimsóknin var í tengslum við glæsilegan kvöldverð sem var haldinn fyrir krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman.

Krónprinsinn, sem í raun stjórnar Sádi-Arabíu, er í heimsókn í Washington í þessari viku. Fyrr um daginn samþykkti Trump sölu á vopnum til Sádi-Arabíu.

Ronaldo settist við borðsendann þar sem Trump sat. Skömmu síðar komu Trump og krónprins Sádi-Arabíu inn.

„Sonur minn er mikill aðdáandi Ronaldos,“ sagði Trump í ræðu fyrir kvöldverðinn.

Yngsti sonur Trumps, hinn nítján ára gamli Barron, fékk einnig að hitta portúgölsku stjörnuna.

„Ég held að hann virði föður sinn aðeins meira núna, bara af því að ég kynnti ykkur hvorn fyrir öðrum,“ sagði Trump.

Ronaldo hefur áður lýst því yfir að hann vildi hitta Trump. Það sagði hann meðal annars í viðtali við Piers Morgan sem birt var fyrr í nóvember.

Hin fertuga fótboltasgoðsögn sagði að bandaríski forsetinn væri einn þeirra sem gætu breytt heiminum eða hjálpað til við að breyta honum.

„Hann er manneskja sem mér líkar mjög vel við. Vegna þess að ég held að hann geti látið hluti gerast og mér líkar við slíkt fólk. Markmið mitt er að hitta Donald Trump og ræða um heimsfrið. Geturðu reddað því?“ sagði Cristiano Ronaldo.

Leiðtogar úr atvinnulífinu eins og Tim Cook, forstjóri Apple, og Elon Musk, stofnandi Tesla, voru einnig viðstaddir í Hvíta húsinu.

Ronaldo var ekki sá eini með tengingu við fótbolta sem var viðstaddur kvöldverðinn. Gianni Infantino, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA), var einnig á staðnum. Heimsmeistaramótið á næsta ári fer fram í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×