Fótbolti

Full­komin undan­keppni hjá Noregi

Árni Jóhannsson skrifar
Það eru engin bönd sem halda Erling Haaland þessa dagana. Hvorki ítölsk né önnur.
Það eru engin bönd sem halda Erling Haaland þessa dagana. Hvorki ítölsk né önnur. Vísir / Getty

Ítalía tók á móti Noregi í Mílanó í lokaleik I riðilsins í undankeppni HM ´26. Norðmenn sneru leiknum við í seinni hálfleik en Ítalir komust yfir en Noregur fór í gegnum riðilinn án þess að tapa leik.

Norðmenn voru þegar búnir að tryggja sér efsta sætið í riðlinum en Ítalir hefðu þurft að vinna leikinn með tveggja stafa mun til að komast yfir Noreg. Ítalir byrjuðu betur og Francesco Esposito kom heimamönnum yfir á 11. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. 

Í seinni hálfleik sneru gestirnir taflinu við en Antonio Nusa jafnaði metin á 63. mínútu. Þá var komið að þætti Erling Braut Haaland. Framherjinn stæðilegi skoraði mark á 78. mínútu og var svo aftur á ferðinni mínútu seinna til að gulltryggja sigur Norðmanna. Jörgen Strand Larsen bætti svo um betur í uppbótartíma og kom forystunni í 1-4 og þar við sat.

Noregur endaði því með átta sigra af átta mögulegum í riðlinum, fengu á sig fimm mörk en skoruðu á móti 37 mörk. Þeir fara beint inn á Heimsmeistaramótið en Ítalir, sem töpuðu bara tveimur leikjum í riðlinum, fara í umspil um að komast inn á mótið. 

Ítalía sem hafa fjórum sinnum unnið heimsmeistaratitilinn hafa ekki komist á lokakeppnina síðan 2014. Það er því líklegt að þorsti Ítala í að vera með sé orðinn svakalegur.

Í hinum leik riðilsins vann Ísrael Moldóva 2-1. Ísraelar enduðu í þriðja sæti riðilsins en Moldóvar í því neðsta. Eistland var í fjórða sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×