Fótbolti

Veðbankar telja mun lík­legra að Ís­land falli úr leik

Sindri Sverrisson skrifar
Úkraína vann 5-3 sigur gegn Íslandi í október í hreint ótrúlegum leik.
Úkraína vann 5-3 sigur gegn Íslandi í október í hreint ótrúlegum leik. vísir/Anton

Samkvæmt stuðlum á veðmálasíðum er líklegast að Ísland tapi gegn Úkraínu í Varsjá á morgun og þurfi þar með að kveðja HM-drauminn.

Með jafntefli eða sigri kæmist Ísland í umspilið fyrir HM í fótbolta á næsta ári. Úkraína þarf hins vegar sigur, til að taka 2. sæti D-riðils af Íslandi og komast í umspilið.

Lengjan gefur stuðulinn 1,63 á sigur Úkraínu og erlendir veðbankar eru á svipuðum slóðum, með 1,70 í stuðul á sigur Úkraínumanna.

Úkraína vann 5-3 sigur gegn Íslandi á Laugardalsvelli í síðasta mánuði og er í 27. sæti heimslistans, eða 47 sætum ofar en Ísland. Það þarf því ekki að koma á óvart að Úkraínu sé frekar spáð sigri, jafnvel þó að Ísland sé ofar í riðlinum á mun betri markatölu.

Lengjan setur 3,48 í stuðul á jafntefli og 4,82 á sigur Íslands, og eru stuðlar erlendra veðbanka í svipuðum anda nema bara hærri.

Íslenski hópurinn er mættur til Varsjár eftir sigurinn gegn Aserum í Bakú og mun Arnar Gunnlaugsson, ásamt leikmanni, sitja fyrir svörum á blaðamannafundi síðdegis í dag sem ætlunin er að verði í beinni útsendingu á Vísi.

Leikur Úkraínu og Íslands hefst klukkan 17 á morgun að íslenskum tíma, í beinni útsendingu á Sýn Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×