Fótbolti

Haaland sótti sjö­tíu ham­borgara fyrir HM-farana

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland er á leiðinni á HM næsta sumar.
Erling Haaland er á leiðinni á HM næsta sumar. Getty/Marius Nordnes

Leikmenn norska karlalandsliðsins í fótbolta eru á leið á sitt fyrsta stórmót, eftir 4-1 sigurinn gegn Eistlandi í Osló í gærkvöld. Þeir fögnuðu sigrinum vel og skærasta stjarnan sótti svo sjötíu hamborgara fyrir sína menn.

Erling Haaland gaf norskum fjölmiðlamönnum ekki neinn séns á viðtali á viðtalssvæðinu eftir leik í gær, þrátt fyrir tilefnið stóra nú þegar 99,99% líkur eru á að Noregur fari á HM í fyrsta sinn á þessari öld.

Fulltrúar Verdens Gang sáu Haaland þó koma út af Ullevaal-leikvanginum en það var til þess að sækja um það bil sjötíu hamborgara fyrir HM-farana til að gæða sér á.

„Fyrirliðinn skilaði þessu vel frá sér,“ sagði Sander Berge, annar leikmaður norska liðsins. „Þetta voru ljómandi góðir hamborgarar,“ bætti Morten Thorsby við.

Með eigið myndatökulið

Haaland hafði einnig verið hrósað fyrir góða hálfleiksræðu, eftir markalausan fyrri hálfleik, en þeir Alexander Sörloth skoruðu svo sitt hvora tvennuna á fyrsta korterinu í seinni hálfleik.

Þó að Haaland hafi ekki viljað ræða við fjölmiðla þá gaf hann sér tíma til að stilla sér upp á mynd með stuðningsmanni, um leið og hann sótti hamborgarana, en vildi ekkert vera að tjá sig um að HM-sætið væri nú svo gott sem í höfn. Hann var með sitt eigið myndatökuteymi á eftir sér og safnaði eflaust efni í þátt á nýju Youtube-rásinni sinni.

Noregur á fyrir höndum útileik gegn Ítalíu á sunnudaginn og getur svo endanlega, formlega fagnað HM-sæti, svo lengi sem að Ítalía vinnur ekki að lágmarki níu marka sigur í þeim leik.

Segir Noreg geta komist í úrslit á HM

Gleðin er mikil hjá Norðmönnum og einn þeirra sem núna eru afar bjartsýnir fyrir HM næsta sumar er hinn 83 ára gamli Egil „Drillo“ Olsen sem stýrði Noregi á HM 1994 og 1998.

„Við erum með leikmenn í heimsklassa. Við erum vel skipulagðir og ef allt gengur upp getum við komist í úrslitaleikinn,“ sagði Drillo samkvæmt VG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×