Fótbolti

Afar ó­vænt tap þegar Finnar hylltu goð­sögn

Sindri Sverrisson skrifar
Það duldist engum að áhorfendur í Helsinki vildu fá að sjá Teemu Pukki spila sinn síðasta mótsleik í kvöld.
Það duldist engum að áhorfendur í Helsinki vildu fá að sjá Teemu Pukki spila sinn síðasta mótsleik í kvöld. EPA/PIRJO TUOMINEN

Finnar eru að kveðja sinn mesta markaskorara frá upphafi en fengu hins vegar ekki að fagna neinu marki í Helsinki í kvöld, í afar óvæntu 1-0 tapi gegn Möltu í undankeppni HM í fótbolta.

Þetta var síðasti mótsleikur markahróksins Teemu Pukki fyrir finnska landsliðið. Þessi fyrrverandi framherji liða á borð við Norwich, Bröndby, Celtic og Schalke hefur alls skorað 42 mörk fyrir finnska landsliðið, í 132 leikjum.

Nafn hans var reglulega sungið á Ólympíuleikvanginum í Helsinki í kvöld en stuðningsmenn fengu þó aðeins að sjá hann spila síðustu tólf mínúturnar. Hinn eiginlegi kveðjurleikur Pukki, sem er 35 ára, verður á mánudaginn þegar Finnar mæta Andorra í vináttulandsleik.

Skömmu eftir að Pukki kom inn á skoruðu Maltverjar eina mark leiksins, þegar Jake Grech skoraði með fínu skoti.

Gestirnir fögnuðu svo ákaft þegar flautað var til leiksloka enda um að ræða fyrsta sigur þeirra í undankeppninni.

Þar með er endanlega ljóst að Finnar enda í 3. sæti G-riðils því þetta var þeirra síðasti leikur. Þeir enduðu með tíu stig og eru fimm stigum á undan Möltu sem á einn leik eftir. 

Holland (16 stig) og Pólland (13 stig) enda í efstu tveimur sætum G-riðilsins en þau lið mætast í hörkuleik í Póllandi í kvöld. Markatala Hollands er hins vegar 13 mörkum betri og þarf því margt að gerast til að Hollendingar endi ekki efstir þegar riðlakeppninni lýkur á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×