Framúrskarandi fyrirtæki

Hvað er eigin­lega í vatninu á Höfn í Horna­firði?

Starri Freyr Jónsson skrifar
Sautján Framúrskarandi fyrirtæki hafa aðsetur á Höfn í Hornafirði en þar búa einungis um 1.800 manns.
Sautján Framúrskarandi fyrirtæki hafa aðsetur á Höfn í Hornafirði en þar búa einungis um 1.800 manns. Mynd/ Þorvarður Árnason.

Höfn í Hornafirði sannar enn og aftur að margur sé knár þótt hann sé smár. Þegar Creditinfo birti nýlega árlegan lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki ársins vakti athygli að í þessu rúmlega 1.800 manna bæjarfélagi eiga sautján Framúrskarandi fyrirtæki aðsetur. Til samanburðar eru 16 slík fyrirtæki í Vestmannaeyjum (um 4.470 íbúar), 19 á Akranesi (um 8.300 íbúar) og 26 í Mosfellsbæ (13.715 íbúar).

Þessi háa tala þarf þó ekki að koma á óvart þegar litið er til þess að Höfn er fjölmennasti þéttbýliskjarninn á stóru svæði á Suðausturlandi. Þar hefur undanfarin ár þróast fjölbreytt atvinnulíf sem byggir á tveimur styrkum stoðum, sjávarútvegi og ferðaþjónustu, auk þess sem fyrirtæki bæjarins þjóna stóru dreifbýlissvæði í kring.

Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri á Höfn í Hornafirði, hefur góða ástæðu til að brosta þessa dagana.

Það er fátt sem gleður bæjarstjóra jafn mikið og öflugt atvinnulíf í bænum og því hefur Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri á Höfn í Hornafirði, sannarlega ástæðu til að brosa breitt þessa dagana.

Hér býr kraftmikið fólk sem kann að byggja upp, standa saman og láta verkin tala.

„Það segir allt sem segja þarf,“ segir Sigurjón þegar hann er spurður hvað þessi árangur segi um atvinnulífið á svæðinu. Í hans huga er þessi góði árangur fyrst og fremst spegilmynd af fólkinu. Hornfirðingar séu vanir að taka til hendinni, byggja upp á eigin forsendum og treysta á samfélagið sitt. „Hér býr kraftmikið fólk sem kann að byggja upp, standa saman og láta verkin tala,“ segir hann.

Höfn í Hornafirði er umkringd náttúruperlum. Hér má sjá hross við Stakkaklett og Fláajökul í baksýn.

Sveitarfélagið sjálft hefur þó ekki setið hjá, það hefur tekið virkan þátt í að skapa jarðveg þar sem fyrirtæki geta náð flugi. Sigurjón lýsir vinnubrögðum sem lausnamiðuðum og liprum, þar sé lítið um óþarfa bið en meira um skjót viðbrögð. „Við höfum skýra sýn á okkar hlutverk,“ segir hann og bætir við að langtímastefna, traust og samtal skipti sköpum. Þegar fyrirtækjunum gengur vel, þá gengur samfélaginu vel og þessi hringrás sé vel þekkt á Höfn.

En hvað er það sem gerir starfsumhverfi fyrirtækja svona nærandi? Sigurjón þarf ekki að hugsa sig lengi um. Hann nefnir stuttar boðleiðir, sterkan samtakamátt og jákvæða orku sem má næstum því finna í loftinu, hvort sem hún kemur frá jöklinum, hafinu eða fjöllunum sem umlykja bæinn. „Það er eitthvað í loftinu hér,“ segir hann kíminn. „Og það gleður mig að sjá hversu vel fyrirtækin hugsa um starfsfólkið sitt, það skiptir miklu máli.“

Ísganga á Breiðarmerkurjökli er vinsæl meðal innlendra og erlendra ferðalang. Ferðaþjónusta, ásamt sjávarútvegi, eru burðarásar í atvinnulífi Hornfirðinga.

Þegar Sigurjón er spurður hvernig hann sjái atvinnulífið þróast á næstu árum segir hann að sjávarútvegur og ferðaþjónusta muni áfram halda velli sem burðarásar en mikil tækifæri séu til vaxtar í matvælaframleiðslu, landbúnaði, þjónustu, nýsköpun og skapandi greinum. „Við sjáum fleiri Hornfirðinga koma heim með nýjar hugmyndir og orku,“ segir hann. „Það er engin tilviljun, fólk sér að hér er hægt að skapa sér framtíð.“

Þegar samtalinu lýkur er ljóst að Sigurjón er bæði hreykin og þakklátur og það með réttu. „Hér í Hornafirði slær stórt hjarta,“ segir hann að lokum. „Þegar fólk fær að gera hlutina á sínum forsendum, með sínum styrkleikum og sérkennum, þá losnar úr læðingi kraftur sem yfirstígur ótrúlegustu hindranir.“

Við sjáum fleiri Hornfirðinga koma heim með nýjar hugmyndir og orku.

Krafturinn er greinilega til staðar og það sést svart á hvítu á lista Creditinfo. Þar má finna sautján ástæður fyrir því að Höfn í Hornafirði er ekki bara fallegur bær heldur líka framúrskarandi samfélag. „Eins og einn lykilstjórnandi í stóru fyrirtæki sagði við mig nýlega: Án samfélagsins værum við ekki neitt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×