Fótbolti

Frakkar á HM og Ís­landi dugar jafn­tefli

Sindri Sverrisson skrifar
Kylian Mbappé skoraði tvö mörk í kvöld og verður á HM næsta sumar.
Kylian Mbappé skoraði tvö mörk í kvöld og verður á HM næsta sumar. Getty/Franco Arland

Frakkar voru í miklum erfiðleikum með að brjóta öflugt lið Úkraínu á bak aftur í kvöld, í riðli Íslands í undankeppni HM í fótbolta, en unnu á endanum 4-0 og hjálpuðu Íslendingum fyrir sunnudaginn.

Sigurinn þýðir að Frakkar eru komnir inn á HM í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada á næsta ári.

Þeir hafa unnið alla leiki sína fyrir utan útileikinn gegn Íslandi, þegar liðin gerðu 2-2 jafntefli í síðasta mánuði.

Ísland og Úkraína eru jöfn að stigum í 2. og 3. sæti en Ísland er með mikið betri markatölu og dugar jafntefli í Póllandi á sunnudaginn, þegar liðin mætast klukkan 17, til að landa 2. sætinu og komast í HM-umspilið í mars.

Úkraínumenn vildu fá vítaspyrnu snemma í seinni hálfleik í kvöld, þegar staðan var enn markalaus, en eftir skoðun á myndbandi ákvað dómarinn að lokum að dæma ekkert.

Strax í kjölfarið, eða á 55. mínútu, fengu Frakkar hins vegar vítaspyrnu. Taras Mykhavko braut þá á Michael Olise og Kylian Mbappé vippaði svo boltanum ískaldur í netið úr vítinu.

Olise skoraði svo á 76. mínútu og Mbappé sitt annað mark í kjölfarið, áður en Hugo Ekitiké innsiglaði sigurinn í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×