Fótbolti

„Mikill heiður fyrir mig og mína fjöl­skyldu“

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson spilaði mikinn tímamótaleik í kvöld.
Jóhann Berg Guðmundsson spilaði mikinn tímamótaleik í kvöld. Sýn Sport

Jóhann Berg Guðmundsson var auðvitað ánægður í kvöld eftir stoðsendingu og sigur í sínum hundraðasta A-landsleik. Hann kveðst aldrei hafa verið í vafa um að hann næði að spila sinn hundraðasta leik.

Jóhann hefur ekki verið í landsliðshópi Arnars Gunnlaugssonar í haust en var svo valinn í leikina við Aserbaísjan og Úkraínu, nú þegar undankeppni HM er að ljúka. Hann fór svo beint inn í byrjunarliðið gegn Aserum í kvöld og þakkaði fyrir sig með stoðsendingu og góðum leik:

„Þetta er búið að taka langan tíma en þetta hófst og það gerir þetta enn betra að hafa náð þremur stigum. Það er mikill heiður fyrir mig og mína fjölskyldu að hafa loksins náð þessum áfanga. Ég er gríðarlega stoltur af öllu því sem ég hef gert með íslenska landsliðinu,“ sagði Jóhann sem lék einmitt einnig fyrsta A-landsleikinn sinn gegn Aserum.

Biðin eftir hundraðasta leiknum var orðin nokkuð löng:

„Já, auðvitað var maður alltaf að hugsa um að klára þetta en það var aldrei neinn efi um að ég myndi klára þetta. Ég veit að ég get komið með helling að borðinu og það er frábært að hafa fengið að klára þetta í dag, byrja leikinn og vinna. Það er það sem skiptir máli,“ sagði Jóhann, ánægður með leikinn í kvöld:

„Við vildum auðvitað ná þriðja markinu inn, 2-0 er alltaf hættuleg staða, og við gáfum þeim alveg séns á að komast inn í leikinn. En þeir gerðu það ekki og 2-0 sigur á útivelli er frábær.“


Tengdar fréttir

Sjáðu mörk Íslands í Bakú

Ísland vann í kvöld ákaflega mikilvægan sigur gegn Aserbaísjan í Bakú, í undankeppni HM í fótbolta. Mörkin úr leiknum má sjá á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×