Innlent

Ekkert „en“ á eftir því að beita maka sinn of­beldi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Andrés Proppé Ragnarsson sálfræðingur segir það oft gagnlega söguskýringu að skoða hvort fólk hafi sjálft mátt þola ofbeldi í æsku. Það sé hins vegar aldrei afsökun fyrir ofbeldi.
Andrés Proppé Ragnarsson sálfræðingur segir það oft gagnlega söguskýringu að skoða hvort fólk hafi sjálft mátt þola ofbeldi í æsku. Það sé hins vegar aldrei afsökun fyrir ofbeldi. Vísir/Anton Brink

Andrés Proppé Ragnarsson sálfræðingur og stofnandi meðferðarúrræðisins Heimilisfriðar segir að í allri meðferð hjá þeim þurfi gerendur að taka ábyrgð á sinni ofbeldishegðun. Hann segir rannsóknir sýna fram á að úrræðið virki og að meirihluti gerenda beiti minna ofbeldi eða hætti því eftir að hafa sótt meðferðina. Andrés segir meðferðina yfirleitt virka best þegar fólk tekur sér góðan tíma og mætir af fúsum og frjálsum vilja.

Heimilisfriður er meðferðarúrræði fyrir einstaklinga sem beita eða hafa beitt ofbeldi í nánum samböndum. Þungamiðja meðferðarinnar snýst um að taka ábyrgð á eigin ofbeldishegðun og þróa leiðir til að takast uppbyggilega á við það sem upp kemur í samskiptum við maka.

Andrés segir fólkið sem leitar til þeirra dreifast á breiðan skala. Fólk komi til þeirra hrætt eftir „lítils háttar ofbeldistilvik“ og sé hrætt við að vera að „byrja einhvern „ofbeldisferil“. Svo séu aðrir sem beita grófu og jafnvel lífshættulegu ofbeldi.

Í Facebook-hópnum Baráttuhópur gegn ofbeldismenningu var úrræðið til umræðu nýlega. Þar var greint frá því, nafnlaust aðallega, að þolendur ofbeldis upplifðu að gerendur þeirra hefðu í meðferðinni fengið einhvers konar réttlætingu á því ofbeldi sem þeir höfðu beitt eða eru að beita.

Gott að geta tekið ábyrgð

„Grunnforsenda hjá okkur er að gerandi sem kemur í meðferð er alltaf sá eini sem þarf einn að taka ábyrgð á ofbeldinu. Fyrsta skrefið er að segja að það er alveg sama hvað makinn þinn gerir, þú berð alltaf ábyrgð á því sem þú gerir. Ef þú hefur beitt ofbeldi er það þitt. Það er ekkert „en“ á eftir því,“ segir Andrés. Að því sögðu segir hann að sálfræðingar Heimilisfriðar taki allri gagnrýni af mikilli alvöru og auðmýkt.

Andrés segir nauðsynlegt að muna að fólk sem beitir ofbeldi er líka fólk. Það sé þeim sóma að leita til Heimilisfriðar og taka ábyrgð á sínum gjörðum. Vísir/Anton Brink

Hann segir það góða við þessi fyrstu skilaboð um eigin ábyrgð að þegar fólk er tilbúið til að taka ábyrgð á sínum gjörðum geti það gert breytingar sem enginn annar getur í raun gert. Þær breytingar séu flókið verkefni og þó svo að sálfræðingar Heimilisfriðar myndu aldrei réttlæta ofbeldi eða ofbeldishegðun sé ekki hægt að koma í veg fyrir að þeir segi eitthvað sem fólk svo túlki sér í hag eða til að réttlæta sína hegðun. Það geti einfaldlega líka verið hluti af þeirra ofbeldishegðun eða hroka.

„Forsendan fyrir okkur er alltaf að viðkomandi taki fulla ábyrgð. Við getum ekki komið í veg fyrir þetta í sjálfu sér en við erum auðvitað að reyna það. Við erum vakandi fyrir því,“ segir hann og að alltaf þegar komi fram gagnrýni á úrræðið taki þau því mjög alvarlega.

Þau skoði verklagið og orðræðuna í sinni meðferð og hvort þau þurfi að endurskoða hana og hvort þau þurfi að vera varkárari.

„Við þurfum auðvitað að vera tilbúin því að taka við slíkri gagnrýni og tökum henni af fullri auðmýkt.“

Ofbeldi ekki afsökun fyrir meira ofbeldi

Andrés segir ýmislegt geta haft áhrif á meðferðina og nefnir að sem dæmi hafi um 85 prósent þeirra sem komi til þeirra í meðferð upplifað ofbeldi sem börn og eigi þannig langoftast flókna og langa áfallasögu.

„En þetta er ekki afsökun fyrir ofbeldishegðun, þvert á móti er þetta hjálpleg söguskýring sem hægt er að nota til þess að breyta,“ segir Andrés og að það sé auðvitað stuðst við allar slíkar upplýsingar í meðferð.

Hann segir meðferðina þannig byggða upp að byrjað sé á allt að fjórum greiningarviðtölum þar sem vandi er metinn og framhaldið ákveðið. Meðferðin sé svo alltaf einstaklingsmiðuð og ekki bundin tímamörkun. Hún getur því tekið langan tíma.

„Við viljum auðvitað að hún sé löng því við vitum, gerum okkur grein fyrir og höfum reynslu af því að það að endurforrita fólk með þeim hætti að það læri að bregðast við með nýjum hætti getur verið afar flókið. Forsendan sem við leggjum upp með er oftast að þetta sé vanmáttur eða vankunnátta. Fólk kunni ekki takast á við lífið með öðrum hætti og okkar hlutverk sé að kenna viðkomandi öðruvísi og betri leiðir til að bregðast við.“

Maki veiti nauðsynlega innsýn

Í meðferðinni sé þannig til dæmis verið að skoða gildismat, skoðanir, uppeldi, fyrri reynslu og afstöðu til samskipta kynjanna. Til að geta tekist á við það þurfi meðferðaraðilar að nota fræðslu, upplýsingar og kennslu auk sálfræðilegrar meðferðar. Það taki tíma.

Auk þess að ræða við þann sem hefur beitt ofbeldi er mökum boðið upp á tvö viðtöl, við upphaf og endi meðferðar. Andrés segir að í þessum viðtölum sé lagt mat á öryggi maka og barna auk þess sem maka gefst færi á að segja sína sögu og dýpka þannig innsýn meðferðaraðila í vandann.

„Við erum með mjög takmarkaðan stuðning við maka,“ segir Andrés en samningur Heimilisfriðar við félags- og húsnæðismálaráðuneytið gerir ráð fyrir fullum gerendastuðningi en aðeins takmörkuðum makastuðningi. Mikilvægt sé að benda á að þolendum standi önnur úrræði til boða eins og Kvennaathvarfið, Bjarkarhlíð á höfuðborgarsvæðinu og Bjarmahlið fyrir norðan og Stígamót.

Andrés segir að stundum sé um gagnkvæmt ofbeldi að ræða og þá séu báðir aðilar í sambandinu í meðferð hjá þeim. Hann segir þetta ekki algengt en þó gerast.

„En það gilda sömu lögmál þar, þú verður að taka ábyrgð á þínu ofbeldi þó svo að maki þinn beiti þig ofbeldi.“

Ofbeldið búið að þrífast lengi áður en fólk leitar eftir aðstoð

Á þessu ári hafa um 350 manns leitað til þeirra í meðferð, af þeim eru liðlega 200 vegna nýrra mála og um 150 sem enn eru í eldri meðferð. Um 80 prósent sem leita til þeirra eru karlmenn og um tuttugu prósent kvenna. Fólk af öðrum kynjum leitar líka til þeirra en hópurinn er svo fámennur að hann mælist varla.

Í nýlegri rannsókn Háskóla Íslands á úrræðinu kom fram að þegar fólk leitaði til þeirra hafði ofbeldi oft fengið að þrífast lengi í sambandi og að mörg pör höfðu áður leitað sér aðstoðar annars staðar.

Niðurstaða rannsóknarinnar var að mikil almenn ánægja væri með úrræðið, bæði meðal maka og skjólstæðinga. Í viðtölum voru viðmælendur samhljóma um að meðferðin væri nauðsynleg fyrir þá sem beita ofbeldi í nánum samböndum.

Hlutfall maka skjólstæðinga sem hefur verið beitt/ur ólíkum tegundum ofbeldis af hendi maka fyrir og eftir upphaf meðferðar maka. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands

Þá var niðurstaðan einnig að dregið hafði úr ofbeldishegðun eftir að meðferð hófst, líkamlegt ofbeldi minnkaði meira en andlegt ofbeldi. Þá sýndi samanburður á svörum skjólstæðinga og maka að makar greindu frá hærri tíðni ofbeldis og því gætu skjólstæðingar verið að vanmeta það ofbeldi sem þeir beita.

Munur mánuði fyrir meðferð og þremur mánuðum eftir meðferð

Þannig greindu til dæmis 30 prósent svarenda frá því að um mánuði áður en meðferð hófst hafi maki hótað að vinna þeim líkamleg mein og að þau hafi verið hrædd. Þremur mánuðum eftir að meðferð hófst var sama hlutfall sjö prósent. Eins greindu um 47 prósent frá því að maki hafi hrint sér, þrifið í sig eða snúið upp á handlegg mánuði fyrir meðferð en það hlutfall var orðið 20 prósent þremur mánuðum eftir að meðferð hófst. Um þrettán prósent sögðu maka hafa tekið sig kyrkingartaki, reynt að kæfa sig eða hafa brennt sig mánuði fyrir meðferð en enginn greindi frá því þremur mánuðum eftir að meðferð hófst.

Hefur þú hegðað þér á eftirfarandi hátt gagnvart maka/fyrrverandi? Hlutfall skjólstæðinga sem svaraði játandi, skipt upp eftir sambandsstöðu. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands

Þá greinir um tuttugu prósent frá því að maki hafi þvingað sig til samfara eða reynt það um mánuði fyrir meðferð en það hlutfall hafi verið orðið tíu prósent eftir þriggja mánaða meðferð.

Sé þetta borið saman við svör gerenda eru svörin sams konar um mánuði fyrir meðferð hvað varðar að hóta maka líkamlegu meini og um að hrinda, þrífa í eða snú upp á handlegg en þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi og kyrkingartaki viðurkenna þeir ekki í sama mæli að hafa gert það. Enginn segist hafa þvingað maka sinn til samfara eða hafa reynt það mánuði fyrir meðferð og aðeins þrjú prósent viðurkenna að hafa tekið maka sinn kyrkingartaki.

Hlutfall skjólstæðinga sem hefur sýnt maka/fyrrverandi maka mismunandi ógnandi hegðun fyrir og eftir upphaf meðferðar, eftir sambandsslit við makann. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands

Ef litið er til andlegs ofbeldis má sjá að um mánuði fyrir meðferð sögðust 73 prósent maka hafa niðurlægt sig þannig að þau urðu miður sín en um 38 prósent þremur mánuðum eftir að meðferð hófst. Þá sögðu 23 prósent maka hafa skemmt eða eyðilagt persónulegar eigur sínar mánuði fyrir meðferð en aðeins þrjú prósent þremur mánuðum eftir að meðferð hófst.

Hlutfall maka skjólstæðinga sem hefur verið sýnd mismunandi ógnandi hegðun fyrir og eftir upphaf meðferðar maka. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands

Þörf á að rýna betur áhrif á börn

Í rannsókninni kemur enn fremur fram að skjólstæðingar Heimilisfriðar lærðu leiðir í meðferð sem gögnuðust þeim til að draga úr ofbeldi og að rannsóknin gefi til kynna bætt samskipti og aukna félagslega virkni hjá skjólstæðingum og mökum þeirra eftir að meðferð hófst.

Í niðurstöðum kemur einnig fram að rýna þurfi betur í áhrif ofbeldis á börn og gæta þess að börn sem búi við slíkt ofbeldi fái stuðning. Í viðtölum kom fram ósk eftir heildrænni nálgun við meðferð á heimilisofbeldi og aukinni aðkomu maka, að makar myndu fá aukinn stuðning og meðferð samhliða skjólstæðingi. Þá kom einnig fram að vísbendingar væru um að úrræðið væri ekki nægilega sýnilegt þeim sem geti nýtt sér það og þarfnist því frekari kynningar.

Langflestir uppfullir af skömm

„Eiginlega allir sem koma til okkar eru uppfullir af skömm. Langflestum finnst erfitt að koma í fyrsta viðtal. Þeir eru fullir af ótta og vanmætti þegar þeir koma og í mikilli vörn,“ segir Andrés og að það þýði að fólk sé ekki endilega fúst til að vera opið eða heiðarlegt í fyrsta viðtali.

Þannig sé algengt að fólk geri lítið úr hlutunum, afneiti þeim og fyrir einstaka aðila er viðtalið svo erfitt að þeir mæta ekki aftur eða það líður langt á milli fyrsta og næsta viðtals.

Andrés segir meðferðina ekki virka þegar menn eða konur taka ekki ábyrgð á því ofbeldi sem þau beita. Vísir/Anton Brink

Hann segir þess vegna afar mikilvægt að hitta maka fljótlega eftir að fólk mætir í fyrsta viðtal því þannig sé farsællegast fyrir meðferðaraðila að fá heildarmynd.

„Við treystum mökum mjög vel til að fylla upp í myndina en um leið og þau koma leggjum við líka fyrir þau alvarleika- og áhættumat, og eftir atvikum bendum við á önnur úrræði, sem eru sérhæfð þolendaúrræði,“

Hann segir alltaf einhverja efast um að svona meðferð virki og að fólk geti raunverulega breyst en það séu til fjöldi rannsókna sem sýni fram á að meðferðin virki.

Andrés segir svo gagnlegt að geta vísað til svona rannsókna. Þær sýni að þau séu að skila langflestum af sér í betra standi en það eigi ekki við um alla.

„Ég vildi að það væri þannig.“

Ekki rétt að fólki sé ekki viðbjargandi

Andrés segir eðlilegt að þolendur vilji fá viðurkenningu á því ofbeldi sem þau hafa verið beitt. Það sé ekki hjálplegt að segja að fólki, konum og körlum, sé ekki viðbjargandi hafi þau einhvern tímann beitt ofbeldi.

„Þetta er heldur ekki rétt eins og rannsóknir hafa sýnt fram á,“ segir Andrés og að það þurfi miklu meira til en það.

„Við þurfum að muna að ofbeldi leiði af sér ofbeldi sem leiði af sér ofbeldi. Þann hring er oft hægt að brjóta,“ segir Andrés og að í rannsókninni hafi til dæmis komið fram ábendingar frá mökum um að ekki væri nægilega hugað að fjölskyldunni í heild á meðan meðferð stendur.

„Þetta er auðvitað eitthvað sem við þurfum alltaf að vera að leitast við að bæta.“

Í nýjasta tölublaði Læknablaðsins er til dæmis fjallað um það að fimmtán prósent þátttakenda í nýrri rannsókn greindu frá því að hafa verið beitt heimilisofbeldi. Tíu prósent karla og tuttugu prósent kvenna. Niðurstöður sýndu að þolendur heimilisofbeldis voru með marktækt fleiri einkenni áfallastreituröskunar, þunglyndis, kvíða og streitu og minni hamingju en aðrir, en þau áhrif voru ólík eftir kyni. 

Hjá konum tengdist heimilisofbeldi fleiri einkennum áfallastreituröskunar, þunglyndis, kvíða og streitu og tengdist minni hamingju, og minni félagslegum stuðningi frá fjölskyldu og vinum. Hjá körlum tengdist heimilisofbeldi einungis auknum einkennum áfallastreituröskunar, þunglyndis og streitu auk minni hamingju, en tengdist ekki kvíða.

Peningar í forvarnir muni alltaf skila sér til baka

Andrés segir þetta afar hátt hlutfall og rannsóknin sýni hversu mikil áhrif slíkt ofbeldi hefur í samfélagslegu tilliti og hversu mikill lýðheilsuvandi það er.

„Öllum peningum sem er varið í aðgerðir til að sporna við, sama hvort það er í vitundarvakningu, þolendastuðning eða gerendameðferð eru peningar sem er vel varið og mun alltaf skila sér þjóðhagslega til baka.“

Andrés segir þá sýna bestan árangur sem fara líka í gegnum hópameðferð. Þar sé unnið kerfisbundið með viðhorf og gildismat. Það sé mikil aðsókn í hópana og ekki allir komist að.

„Getum við hjálpað öllum? Nei, auðvitað ekki. Okkur tekst langoftast vel upp en það verður alltaf fólk sem segir já, finnst þér þetta, fokkaður þér, ég er farin. Svo kemur fólk aldrei aftur í meðferð. Það gerist reglulega hjá okkur,“ segir hann og að þá skorti fólk meðferðarhvata.

„Það minnkar ekki hjá öllum eða hættir,“ segir Andrés og það sé erfitt að eiga við þann hóp þar sem meðferðin hreinlega virkar ekki neitt. Það sé alltaf tilfellið hjá einhverjum hluta þeirra sem kemur í meðferð.

Heimilisfriður er eina úrræðið fyrir gerendur og Andrés segir það besta fyrir þolendur að unnið sé með gerendum.

Hann segir núna verið að gera tilraunir með að það fylgi dómi að menn eða konur sæki meðferð hjá Heimilisfriði sem hluta af afplánun. Það sé of stutt frá því að meðferðin hófst til að segja fyrir um árangur en rannsóknir á sams konar úrræðum erlendis sýni að þó svo að meðferðin virki ekki eins vel í þessum tilfellum þá virki hún að einhverju leyti.

Skylt að koma en komi þó sjálf

Hann segir langflesta þó koma til þeirra af frjálsum og fúsum vilja en það sé algengt að þessi „frjálsi og fúsi vilji“ sé samt sem áður tilkominn vegna pressu frá maka.

„Sem er eðlilegt af því að annaðhvort gerir fólk þetta eða makinn fer, enginn á að þurfa að lifa við ofbeldi á heimili sínu,“ segir hann og að það sama gildi um fólk sem komi með tilvísun frá barnavernd. Þar er fólki gert skylt að koma í viðtöl sem hluti af barnaverndarmáli.

„Það er oft mikil pressa og það er verið að tikka í box en mér finnst ótrúlegt hvað fólk sem kemur á þessum forsendum er eftir sem áður tilbúið að skoða og vinna með þegar við erum búin að hittast í nokkur viðtöl,“ segir Andrés og að sálfræðingarnir séu orðnir nokkuð góðir að hvetja fólk til að halda meðferðinni áfram þó svo að fólk hafi hafið hana á forsendum einhverra annarra en sín sjálfs.

„Fólk sem er gerendur er líka fólk og það er þeim sem leita til okkar til sóma að leita til okkar af því að það að gangast við og takast á við ofbeldishegðun getur aldrei verið annað en jákvætt.“


Tengdar fréttir

„Ég hélt ekki að ég ætti eftir að upp­lifa svona rosa­legt bak­slag“

Drífa Snædal, talskona Stígamóta, og Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, eru sammála um að þó svo að í dag sé bakslag í jafnréttisbaráttu hafi verið stigin afar stór skref síðustu ár. Það séu nýjar áskoranir í nýjum tegundum ofbeldis og nýjum kynslóðum gerenda, en þær séu vel tilbúnar að takast á við slíkar áskoranir. 

Hófu ekki rannsókn á heimilisofbeldi fyrir misskilning

Lögmaður konu, sem taldi sig hafa lagt fram kæru á hendur fyrrverandi sambýlismanni sínum í ágúst árið 2024, fékk þau svör í apríl árið eftir að engin rannsókn hefði verið hafin á meintu heimilisofbeldi mannsins í garð konunnar. Nefnd um eftirlit með lögreglu telur ljóst að mistök hafi verið gerð við skýrslutöku yfir konunni.

Hóf störf of snemma eftir kvörtun vegna heimilisofbeldis

Nefnd um eftirlit með lögreglu hefur ávítt lögregluembætti fyrir að heimila lögreglumanni að hefja störf á ný, mánuði eftir að hann var sakaður um heimilisofbeldi. Rannsókn á meintu ofbeldi var felld niður en niðurstaða nefndarinnar var sú að embættið hefði átt að láta kærufrest líða áður en lögreglumanninum var heimilað að mæta til starfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×