Fótbolti

Strákarnir æfðu í sólinni í Bakú

Valur Páll Eiríksson skrifar
Það voru fínustu aðstæður til fótboltaiðkunnar í dag.
Það voru fínustu aðstæður til fótboltaiðkunnar í dag. Vísir/VPE

Karlalandsliðið í fótbolta æfði á keppnisvelli morgundagsins, heimavelli Neftci, í dag. Létt var yfir mönnum á æfingu dagsins en einn leikmaður tók ekki þátt.

Valur Páll Eiríksson skrifar frá Bakú

Strákarnir mættu flestir til landsins á mánudaginn var og hafa menn flestallir jafnað sig á flugvþreytu og tímamismun, þó það hafi tekið einhverja í starfsteyminu lengri tíma en leikmennina.

Breytilegt er hvar Aserbaísjan spilar heimaleiki sína en sá við Ísland er á 11 þúsund manna heimavelli liðs Neftci. Þegar Frakkar koma í heimsókn á sunnudaginn kemur munu þeir hins vegar spila á 30 þúsund manna heimavelli Qarabag annarsstaðar í borginni.

Völlurinn er lítill og þröngur. Lítið pláss er til að mynda fyrir þjálfara að athafna sig á hliðarlínunni, aðeins um tveir metrar frá hliðarlínu að bekknum.

Búist er við um átta þúsund manns á völlinn hið minnsta og ætti að vera fínasta stemning þegar liðin mætast á morgun.

Mikael Anderson var ekki með á æfingu liðsins en aðrir tóku fullan þátt.

Arnar Gunnlaugsson og Hákon Arnar Haraldsson munu sitja fyrir svörum á blaðamannafundi klukkan 13:15 í dag. Fundurinn verður sýndur beint á Vísi.

Teymi Sýnar mun fylgja okkar mönnum eftir hvert fótmál fram að leik sem hefst klukkan 17:00 á morgun sýndur beint, í opinni dagskrá, á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×