Enski boltinn

Mætti sínu gamla liði í fyrsta sinn og skoraði tvö sjálfsmörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Cameron Burgess átti hræðilegan dag með Swansea City um helgina.
 Cameron Burgess átti hræðilegan dag með Swansea City um helgina. Getty/ Athena Pictures

Þetta var ekki góð helgi fyrir Cameron Burgess í enska boltanum. Það má reyndar ganga svo langt að þetta hafi verið hörmuleg helgi fyrir kappann.

Burgess var að mæta sínum gömlu félögum í Ipswich í fyrsta sinn. Hann yfirgaf Ipswich Town í sumar eftir að hafa spilað þar í fjögur ár.

Burgess er þrítugur ástralskur miðvörður sem hefur spilað 21 landsleik fyrir Ástralíu. Burgess samdi við Swansea City í sumar og var í byrjunarliðinu á móti sínu gamla félagi.

Það endaði ekki betur en svo að Ipswich vann leikinn 4-1 og Burgess varð fyrir því að skora sjálfsmark, ekki einu sinni heldur tvisvar.

Hann kom Ipswich yfir í 2-1 á 55. mínútu og seinna sjálfsmarkið hans kom á 81. mínútu og gerði endanlega út um leikinn með því að koma Ipswich í 4-1.

Burgess á enn eftir að skora í rétt mark á leiktíðinni.

Svo slæmt var þetta að Burgess þurfti að skrifa afsökunarbeiðni á samfélagsmiðla sína.

„Ég tjái mig yfirleitt ekki mikið á samfélagsmiðlum og mun líklega taka þessa færslu niður fljótlega en mig langaði bara að skrifa skilaboð til þeirra stuðningsmanna Swansea City sem vilja heyra þau,“ skrifaði Burgess.

„Ég veit hversu mikið þetta félag þýðir fyrir ykkur öll og hversu stolt þið eruð af því að vera hluti af því. Sem leikmaður heyri ég gagnrýni ykkar og þið munuð ekki heyra neinar afsakanir frá mér. Trúið mér, ég er minn versti gagnrýnandi og það er eina markmið mitt að laga hlutina á vellinum með því að sýna það sem þið öll ætlist til að sjá,“ skrifaði Burgess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×