Innlent

Tvö pör hand­tekin og af­skipti höfð af tvímenningum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sjö gistu fangageymslur lögreglu í morgunsárið.
Sjö gistu fangageymslur lögreglu í morgunsárið. Vísir/Ívar Fannar

Tvímenningar komu ítrekað við sögu á vaktinni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Sjö gistu fangageymslur í morgunsárið.

Lögregla handtók meðal annars par í póstnúmerinu 111 og vistaði í fangaklefa en parið er grunað um ýmis brot, svo sem vopnalagabrot, eignaspjöll og sölu og dreifingu fíkniefna. Þá fóru viðkomandi ekki eftir tilmælum lögreglu.

Annað par var handtekið í póstnúmerinu 104 vegna líkamsárásar, eignaspjalla og vörslu fíkniefna. Þá voru höfð afskipti af tveimur einstaklingum sem þóttu sig eiga eitthvað óuppgert við húsráðanda í Garðabæ.

Lögregla var einnig kölluð til þegar til átaka kom milli leigubílstjóra og farþega. Ágreiningur var uppi um upphæð fargjaldsins. Þá var aðstoðar lögreglu óskað vegna söngkonu sem var að láta ljós sitt skína í karaókí en féll fram af sviðinu.

Einn var handtekinn eftir að hafa verið til vandræða á bráðamóttökunni og annars staðar í borginni. Var hann vistaður í fangaklefa. Þá gisti erlendur einstaklingur fangageymslur en sá var peningalaus og átti ekki í nein hús að venda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×