Enski boltinn

Enska úrvalsdeildin í jóla­köttinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þessi stuðningsmaður Newcastle mætti í gervi Trölla (Grinch) á St. James' Park á öðrum degi jóla.
Þessi stuðningsmaður Newcastle mætti í gervi Trölla (Grinch) á St. James' Park á öðrum degi jóla. Getty/Owen Humphreys

Fótboltaleikir í ensku úrvalsdeildinni á öðrum degi jóla hafa verið ein sterkasta hefðin í enska boltanum í gegnum áratugina. Nú verður líklegast breyting á því í ár.

Samkvæmt fréttum frá Englandi munu aðeins tvö af tuttugu liðum ensku úrvalsdeildarinnar fá að upplifa það að spila á öðrum degi jóla í ár.

Aðeins einn leikur mun nefnilega fara fram á þessum degi, 26. desember, sem að þessu sinni lendir á föstudegi.

Leikmenn kvarta eflaust ekki yfir því að fá meiri tíma til að eyða jólunum með fjölskyldum sínum en stuðningsmenn telja sig örugglega margir missa af miklu að viðhalda hefðinni.

Ástæðurnar eru margar en sú stærsta er að UEFA hefur stækkað sínar Evrópukeppnir og enska bikarkeppnin verður öll spiluð um helgar. Þetta þrengir að ensku úrvalsdeildinni og setur pressu á deildina að skila leikjum á 33 helgum á tímabilinu eins og kemur fram í sjónvarpssamningum.

Það er ekki búið að staðfesta leikjadagskrána í desember enn en það er talið að aðeins einn leikur verði á þessum föstudegi. Hinir leikir umferðarinnar fara síðan fram á laugardegi (27. desember), sunnudegi (28. desember) og mánudegi (29. desember).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×